- Advertisement -

Sigmundur Davíð: Okkur skortir orku

Stjórnmál „Það eru fjölmörg mikilvæg verkefni, sem vel að merkja eru flest ekki stóriðjuverkefni, sem skortir orku, verðmæt framtíðarverkefni sem skortir orku, verkefni sem munu verða til þess fallin að skapa fjöldann allan af störfum, auka kaupmátt í landinu, auka hagvöxt, bæta lífskjörin, en það strandar á orkuþörfinni,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í gær.

Hann var að svara fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur. Hún sagði meðal annars: „Ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að tengja þetta mál við kjarasamninga? Er hann að segja fólkinu sem bíður eftir því að ríkið nái lausn með BHM og bíður eftir meðferð inni á spítala, að ef Alþingi gangi ekki fram hjá og hunsi lögbundið ferli rammaáætlunar þá verði ekki samið? Er hæstvirtur forsætisráðherra virkilega að setja málið í þetta samhengi? Mig langar að fá það alveg á hreint.“

Katrín kom á óvart

Sigmundur Davíð sagði Katrínu hafa komið sér á óvart, með langsóttum útúrsnúningi, það sem það væri ekki hennar vani. „Ef menn vilja að launahækkanir skili sér raunverulega í auknum kaupmætti þá þurfum við aukna verðmætasköpun í þessu landi. Þar hefur því miður í allt of miklum tilvikum strandað á orkuskorti,“ sagði forsætisráðherra meðal annars.

Katrín gafst ekki upp og ítrekaði fyrri ummæli sín. „ Til þess að hægt sé að ná raunverulegum kjarabótum þurfum við þessa auknu verðmætasköpun. Þannig að ég heyri ekki betur en hæstvirtur ráðherra sé að setja þetta í þetta samhengi.“

Erum að leiðrétta fyrri ríkisstjórn

„Það liggur fyrir, virðulegur forseti, og óþarfi að halda áfram fullyrðingum um slíkt. Hér er einfaldlega verið að leiðrétta pólitísk inngrip síðustu ríkisstjórnar í faglegt ferli, það er ekki flóknara en það. Það liggur fyrir að hér er að nokkru leyti, ekki að öllu leyti, verið að leiðrétta pólitískt inngrip síðustu ríkisstjórnar í faglegt ferli eins og Alþýðusambandið og fjölmargir aðrir bentu á á sínum tíma,“ sagði forsætisráðherra.

Umhverfsivænir kostir

Meðal þess sem kom fram í máli forsætisráðherra var þetta: „ Þá hlýtur að vera í lagi, virðulegur forseti, að menn skoði a.m.k. þá orkuöflunarkosti sem eru taldir umhverfisvænstir, ekki bara á Íslandi, heldur jafnvel um gervalla Evrópu. Menn hljóta að minnsta kosti að vilja skoða það því það má ekki gleyma því að þó virkjunarkostur fari í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að það verði virkjað. Það er heilmikið ferli eftir við að meta hvort ástæða sé til að ráðast í virkjun og hvort það sé óhætt í tengslum við náttúruna, efnahagslega og þar fram eftir götunum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: