„Mestur tími þingsins ætti að fara í eftirlit með framkvæmdavaldinu,“ segir meðal annars í Moggagrein sem Björn Leví Gunnarsson Pírati skrifar.
„Þegar maður áttar sig á því skilur maður líka af hverju þingið er fast í óskilvirkum lagasetningargír. Því að á meðan þingið er fast í því fari eru ráðherrar með „losnar frítt úr fangelsi“-spil á hendi. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað óhreint komi upp úr pokanum, kannski út af þrotlausri vinnu rannsóknarblaðamanna eða vegna þess að fólk leitar réttar síns fyrir mannréttindadómstól, er ráðherrann alltaf á bak við afsökunarskjaldborg þingflokka í meirihlutastjórn sem er límd saman með samtryggingunni,“ skrifar þingmaðurinn.
„Þetta er alvarlegt mál því þegar ráðherra hlutast til um skipun dómara, ráðningu í fræðasamfélaginu eða skipar flokksgæðing umfram hæfnismat þá verður Ísland verra en það gæti verið. Þetta þýðir verri niðurstöður þegar borgarar leita réttar síns, lélegri vísindi og hlutdræga stjórnsýslu þar sem málefnaleg rök skipta ekki máli heldur hvaða flokksskírteini fólk ber.
Afleiðingin af því eru glötuð tækifæri, ranglæti, leyndarhyggja til þess að fela ófaglegheitin og verra Ísland. Það sem við þurfum er minnihlutastjórn svo framkvæmdavaldið ráði ekki öllu og ný og betri stjórnarskrá með frumkvæðisrétti og málskotsrétti.“