- Advertisement -

Vill fók á lægri laun en að sín hækki

Eyjólfur segðu mér, af hverju ert þú svona miklu meira virði en fólkið sem vinnur vinnuna sem býr til hagnaðinn?

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, er einn af þeim sem nú fara fram með áróður um að ekkert sé mikilvægara en að vinnuaflið afsali sér kjarasamningsbundnum launahækkunum. Hann er sár yfir því að ég og aðrir innan hreyfingar vinnandi fólks skulum ekki taka undir það með auðstéttinni að auðvitað sé sjálfsagt að skerða kjör vinnandi fólks, um leið og kreppan bankar. Hann lætur eins og hann viti ekki að fátt er mikilvægara til að stytta kreppur en að launafólk hafi eitthvað á milli handanna til að nota í sínu nærumhverfi; eitthvað afgangs til að ferðast innanlands, kaupa nýja úlpu handa afkvæmum, fara kannski út að borða. Það er ekki hægt að hugsa sér skynsamlegri ráðstöfun en tryggja vinnuaflinu hækkanir; ekki flytjum við aurana okkar í skattaskjól eða troðum þeim inn í banka, nei, við notum þá til að kaupa okkur ís og pulsu.

En vitiði hvað? Á sama tíma og Eyjólfur agiterar markvisst fyrir því með hræðsluáróðri að fólk afsali sér kjarasamningsbundnum hækkunum, sem það þurfti að berjast fyrir, er hann að skammta sjálfum sér launahækkun Lífskjarasamningsins!
Hann situr í stjórn einhvers fyrirbæris sem heitir Fasteignafélagið Eik og sú stjórn hefur ákveðið að leggja það til á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 10. júní að laun stjórnarmanna hækki; ef að þetta verður samþykkt á aðalfundi mun Eyjólfur hækka í launum fyrir stjórnarformennsku úr 650 þúsund krónum í 668 þúsund krónum á mánuði. Einnig er lagt til hlutfall árangurstengdra greiðslna verði hækkað úr 10% í 16% af heildarlaunakjörum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svona er þetta, sagan eldgamla og endalausa, tvískinnungurinn og hræsnin eru ótrúleg; ríkasta fólkið notar öll tækifæri til að taka meira til sín á meðan verka og láglaunafólk á að vera svo illa haldið af sjálfshatri að það sé ávallt til að fórna eigin hagsmunum um leið og eitthvað bjátar á.
Mikið væri nú gott og gaman ef einhver fréttamanneskja spyrði Eyjólf þessarar spurningar: Eyjólfur segðu mér, af hverju ert þú svona miklu meira virði en fólkið sem vinnur vinnuna sem býr til hagnaðinn?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: