- Advertisement -

Góðar fréttir fyrir þjóðarhag

Það hljóta allir að fagna því og þá sérstaklega sjávarútvegsráðherra, ef ekki þá dæmir hann sig algerlega úr leik og gæti endað sem sendiherra í Namibíu að lokinni grásleppuvertíðinni.

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Nú hafa helstu sérfræðingar þjóðarinnar í rannsóknum á grásleppu rýnt umdeilda „veiðiráðgjöf“ Hafró á fiskinum. Það eru þeir Bjarni Jónsson fiskifræðingur og forstöðumaður Náttúrstofu Nv. og Halldór G. Ólafsson sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Biopol.

Niðurstað þeirra er skýr og afdráttarlaus um að ráðgjöfina beri að endurskoða og taka tillit til fleiri þátta og þeirrar þekkingar sem hefur bæst við á síðasta áratug, á lífsháttum og líffræði hrognkelsa.

Af skýrslunni má ráða að grásleppuveiðar geti hafist strax að nýju á þessari vertíð.

Það hljóta allir að fagna því og þá sérstaklega sjávarútvegsráðherra, ef ekki þá dæmir hann sig algerlega úr leik og gæti endað sem sendiherra í Namibíu að lokinni grásleppuvertíðinni.

——————————————–

Hér er erindi sérfræðinganna til atvinnuveganefndar Alþingis

Atvinnuveganefnd alþingis

Efni: Hrognkelsaveiðar, veiðiráðgjöf og endurskoðun hennar

Ein helsta réttlætingin fyrir því að áætla stofnstærð hrognkelsa, sem annars er fremur uppsjávarfiskur, útfrá meðafla í stofnmælingum botnfiska á Íslandsmiðum, sem eru sniðnar að rannsóknum á fisktegundum með ólíka lífshætti, hefur verið sú að þær niðurstöður hafa rýmað vel við niðurstöður úr netaralli og afla á sóknareiningu (CPUE). Hrognkelsarannsóknir hófust aftur af fullum krafti við Ísland eftir langt hlé árin 2008 og 2009. Um þetta segir í rannsóknaskýrslu okkar um þær frá þeim tíma „Árleg úttekt Hafrannsóknastofnunar á stofnstærð hrognkelsa er byggð á vísitölu stofnstærðar í stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum og úrvinnslu gagna úr veiðidagbókum. Nokkuð gott samræmi hefur verið á milli vísitölunnar og afla á sóknareiningu hjá grásleppubátum“ (Halldór G. Ólafsson, Bjarni Jónasson og Bjarni Jónsson; 2009, bls. 2).

Um þetta er fjallað 2017 í grein eftir starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar í tímaritinu Fisheries Science. Þar kemur fram að þetta samband sé enn til staðar og er jafnframt helsta réttlætingin fyrir því að fjöldi hrognkelsa sem meðafli í botnfiskrannsóknum sé notaður til grundvallar „In conclusion, given that the biomass index from the gillnet survey and CPUE of the fishery show similar trends to the biomass index from the spring survey, upholds the use of this survey for assessment purposes“ (James Kennedy og Sigurður Þór Jónsson, Fisheries Research 194/2017 bls. 29).

Það hefur nú gerst á yfirstandandi vertíð að grásleppuafli á sóknareiningu hefur sjaldan eða aldrei verið meiri og netarall hefur bent til sterkrar stöðu stofna. Það er algerlega á skjön við útgefna veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar þar sem eingöngu eru notaðar uppreiknaðar vísitölur sem byggja á stofnmælingu botnfiska. Það samhengi sem verið hefur á milli þessara þriggja þátta er ekki lengur til staðar. Af ofansögðu má ljóst vera að ærið tilefni er til að taka útgefna ráðgjöf um hámark grásleppuafla nú þegar til endurskoðunar og uppfæra með tilliti til þessara þátta og heimila meiri veiði á yfirstandandi vertíð. Taka þarf tillit til bestu fánlegu þekkingar á hverjum tíma.

Hagrannsóknastofnun tók ákvörðun um að uppreikna og breyta stuðlum sem liggja til grundvallar útreikningum á vísitölu stofnstærðar hrognkelsa, lækka viðmiðunargildi ráðgjafareglu um 12% sem varð þess valdandi að ráðgjöfin fyrir yfirstandandi vertíð var 4.646 tonn í stað 5.200 tonna. Var þetta byggt á endurmati á veiddu magni af grásleppu aftur í tímann og hefur því til réttlætingar verið vísað til greinar sem vitnað er til að ofan. Komið hefur fram að þó að tímaritið sé ekki í hópi virtustu vísindarita sé það ritrýnt og það staðfesti breytta nálgun á útreikninga. Í því sambandi er vert að benda á að þeir sem fengu handritið til yfirlestrar hafa engar forsendur til að leggja mat á hvernig til tókst að lesa úr gömlum afladagbókum og tengdum gögnum, heldur nær rýnin til niðurstaðna sem á þeim forsendum byggja. Þá ert vert að vekja athygli á að í þessari sömu grein er lögð áhersla á mikilvægi þess að samræmi sé á milli afla á sóknareiningu, niðurstaðna úr netaralli og botnfiskrannsóknum. Þessir nýju úteikningar leiða til mun meiri skekkju á því samhengi. Það er því full ástæða til að fara aftur yfir þessi gögn og önnur sem varpa ljósi á raunverulega veiði undanfarinna ára. Þessi gögn eru á margan hátt ekki auðveld í úrlestri og mikilvægt að gera sér vel grein fyrir takmörkunum þeirra. Komið hefur fram rökstudd gagnrýni á þær forsendur sem breytingarnar byggja á og einboðið að það þarf að taka meðferð þessara gagna til endurskoðunar.

Mikilsverðrar nýrrar þekkingar hefur verið aflað undanfarin ár á lífsháttum og líffræði hrognkelsa við Ísland, ekki síst í tengslum við samstarf Hafrannsóknastofnunar og Biopol á Skagaströnd. Mörgu af því hefur þegar verið miðlað í vísindagreinum og annað er í vinnslu. Í ljósi þessa er tímabært að farið verði yfir hvernig megi betur nýta þessa viðbótarþekkingu til heildstæðara mats á stöðu hrognkelsastofna og hvernig megi sem best nýta þá með sjálfbærum hætti í þágu byggðana víðsvegar um landið, sem eiga mikið undir grásleppuveiðum. Það skýtur að mörgu leiti skökku við að enn sé að mestu byggt á þeim takmarkaða fjölda hrognkelsa sem kemur á land í rannsóknatúrum sem beint er að botnfiskrannsóknum. Það er arfleið frá þeim tíma að litlar sem engar rannsóknir voru stundaðar sem beindust sérstaklega að hrognkelsum og mun minna var vitað um tegundina. Komið hefur fram hjá stjórnendum Hafrannsóknastofnunar að þau telji sig búa af veikum gögnum til að byggja á og séu að því leiti til í samtal um þau. Þar erum við ekki að öllu sammála. Hafrannsóknastofnun hefur verið að vinna gott starf í rannsóknum á hrognkelsum síðustu ár og slíkt lítillæti óþarft. Það sem vantar hinsvegar er að nota þá víðtæku þekkingu sem er að skapast með heildstæðum hætti í umgengni við tegundina og veiðistýringu, að því marki sem hennar er þörf. Það má því fremur segja að stofnunin hafi nýtt með fátæklegum hætti þá viðbótarþekkingu sem tekist hefur að afla.

Enn er margt um lífshætti, hrygningu, stofnsamsetningu og lífsögu hrognkelsa sem okkur sárvantar að vita meira um og annað sem fylgja þarf betur eftir. Það er því brýnt að enn meiri kraftur verði settur í rannsóknir á hrognkelsum, ekki síst í ljósi þess hve mikla þýðingu hrognkelsaveiðar hafa fyrir mörg byggðarlög víðsvegar um landið.

Enn er mörgum spurningum ósvarað um lífshætti, vaxtarhraða og aldurssamsetningu veiðistofns og ekki liggja fyrir traustar aldursgreiningar sem eru mikilvæg forsenda farsællar veiðistýringar. Halda þarf áfram merkingum og þróa þær áfram, taka betur til skoðunar staðbundna þætti og mögulegan mun á milli landshluta. Er ástæða til að beita svæðisbundnari veiðistýringu? Þó merkingar Biopol sýni að sum hrognkelsi ferðist víða á veiðitímanum, þá hefur stærstur hluti endurveiddra fiska veiðst nálægt merkistað. Leiddar hafa verið líkur að því að minna en 10% hrognkelsa lifi að hrygna öðru sinni. Það ásamt kynþroskaaldri skiptir miklu máli fyrir mat á æskilegu veiðimagni og hvort er hægt að byggja veiðiráðgjöf að stórum hluta á stofnmati frá fyrra ári.

Á meðal fleiri atriða sem ber að hafa í huga er að stór svæði við landið njóta raunverulegra náttúrulegrar friðunar nú þegar fyrir veiði, vegna legu sinnar fjarri mannabyggð og stærðar bátanna sem veiðarnar stunda. Hefur það lækkað dánartölu hrognkelsa að loðnuveiðar hafa ekki verið stundaðar árin 2019 og 2020? Því hefur verið haldið fram að talsvert af ungum hrognkelsum lendi í veiðarfærum loðnubáta. Þá verður að fara með opnum huga yfir ábendingar sem koma fram, ekki síst frá sjómönnum sem veiðarnar stunda og hafa margir áralanga reynslu að baki. „Fiskifræði sjómannsins“ má aldrei vanmeta. Fara þarf yfir stöðu þekkingar á breiðum grunni og beita við nýtingu og verndun hrognkelsa og sömuleiðis til að undirbyggja frekari rannsóknir og forgangsraða þeim rannsóknaspurningum sem brýnast er að svara.

Við höfum hafið vinnu að greinargerð um stöðu þekkingar á hrognkelsum og hvernig sé hægt að nýta hana með heildstæðari hætti við sjálfbæra nýtingu hrognkelsa við Ísland og þá um leið um þætti sem mikilvægast er að afla meiri þekkingar á svo skili mestum árangri. Þá munum við greina betur gögn og forsendur fyrirliggjandi veiðiráðgjafar og koma með ábendingar og tillögur um umgjörð, framkvæmd og fyrirkomulag hrognkelsaveiða við Ísland.

Bréf þetta ritum við með litlum fyrirfara og við upphaf þeirrar vinnu og ber að skoða það efnislega í því ljósi hvað varðar reifun málsins. Það er hinsvegar brýnt að fyrirliggjandi veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verði nú þegar tekin til endurskoðunar og teljum við einsýnt að auka veiðiheimildir í ljósi fyrirliggjandi þekkingar og mikillar grásleppugengdar á yfirstandandi vertíð. Slík yfirferð þolir enga bið í ljósi afkomu þeirra fjölmörgu sjómanna, fjölskyldna þeirra og byggðarlaga sem nú eru í uppnámi vegna fyrirvaralausrar stöðvunar grásleppuveiða án þess að þeir hefðu einu sinni náð að sjósetja bátana.

Við leggjum til við atvinnuveganefnd alþingis að hún beini því til Hafrannsóknastofnunar að taka veiðiráðgjöfina nú þegar til endurskoðunar og ráðherra í framhaldi að endurskoða ákvarðanir þar um.

Virðingarfyllst, 8. maí 2020

______________________

Halldór G. Ólafsson,

Framkvæmdastjóri Biopol ehf

______________________

Bjarni Jónsson,

Forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: