Þá er ljóst að það er ekki sama hver á í hlut litli einyrkinn eða Samherji.
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Sjávarútvegsráðherra stöðvar veiðar á grásleppu á þeirri forsendu að veiðar séu komnar fram úr ráðgjöf Hafró. Í umræddri ráðgjöf kemur skýrt fram að mat á grásleppustofninum sé háð mikilli óvissu. Af þeirri ástæðu er m.a. beitt þeirri furðulegu aðferð að byggja ráðgjöfina að stórum hluta frá stofnmælingu frá fyrra ári! Grásleppan er að mest að finna uppsjávar, en stofnmatið er gert út frá mælingum á stofnmati botnfiska (Togararallinu). Það eitt ætti að gefa tilefni til þess að túlka niðurstöður með mikilli varúð. Merkingartilraunir sem gerðar hafa verið af Biopol á Skagaströnd og gríðarleg grásleppugengd nú vor benda eindregið til þess að fiskveiðidauði sé stórlega ofmetinn og grásleppustofninn vanmetinn.
Ef litið er til þess hvað Hafró gerir þegar vart er við að annar uppsjávarstofn þ.e. loðnan gengur í miklu meira mæli á veiðislóð en fyrstu mælingar gefa til kynna, þá er venjulega farin sú leið að endurmeta veiðistofninn og gefa þá út auknar veiðiheimildir. Sjávarútvegsráðherra þyrfti að svara því hvers vegna það var ekki gert og í stað þess gripið til gerræðislegrar ákvörðunar sem brýtur á atvinnufrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar út frá hæpnum forsendum og mikilli óvissu?
Það hefur verið bent á að aðgerðin og skerðing strandveiðiaflans í ár, sé hefnd vegna þess að ráðherra varð ekki kápan úr því klæðinu að koma grásleppunni inn í kvótabraskkerfið og skiljanlega alger örvinglan og jafnvægisleysis sjávarútvegsráðherra vegna Samherjamálsins.
Hver svo sem ástæðan er fyrir þessu efnahagslega hryðjuverki ráðherra Sjálfstæðisflokksins er, þá er ljóst að það er ekki sama hver á í hlut litli einyrkinn eða Samherji.