Tveir næstum eins, eða þannig
Skoðun Davíð Oddsson og Jón Gnarr eiga fleira sameiginlegt en að hafa verið borgarstjórar. Báðir hafa játað vanþekkingu sína á málum sem voru þeim erfið.
Jón Gnarr vakti athygli þegar hann talaði um vanda Orkuveitunnar, en samtalið var nokkurn veginn á þennan veg:
„Þetta er svona einhverjir talnaleikir sem að, ég kann ekki einu sinni að útskýra þá sko.“
„…ég bara ég skil ekki, skil ekki hvernig hægt er að fá þetta út, fá þetta út, ég man ekki hvað orðin heita einu sinni sem að eru notuð til þess að setja þetta svona upp.“
Snéri hann sér svo að aðstoðarmanni sínum og spurði hann hvað þetta héti aftur og fékk þá útskýringu að hagnaðurinn yrði notaður til að greiða niður skuldir. Það væru stórir gjalddagar á næsta ári.
Viðbrögð borgarstjóra voru þessi:
„Já það er eitthvað svoleiðis, já þetta er eitthvað…“
Jón Gnarr í fréttum RÚV í nóvember 2010, nýorðinn borgarstjóri.
Davíð lýsti upplifun sinni að því að hefja störf í Seðlabanka Ísland á sínum tíma.
„Auðvitað þóttist ég hafa heilmikla þekkingu og reynslu frá því ég var borgarstjóri og forsætisráðherra lengi og það allt saman en ég komst auðvitað fljótt að því að þegar maður kemur í nýtt starf að þá er maður vitlausasti maðurinn á staðnum í töluverðan tíma. Og þar lenti ég í, menn sátu í umræðunum og ég skyldi ekki helminginn af því sem menn voru að segja af því að menn nota svona annan talsmáta og þess háttar. Og það er ekkert að því að vera vitlausasti maðurinn á staðnum ef þú viðurkennir það. Ef þú viðurkennir það þá hættirðu því kannski fljótlega en ef þú viðurkennir það ekki og þykist vera eitthvað betri heldur en þú ert þá verðurðu það bara áfram.“
Davíð Oddsson í Kastljósi í september 2006, nýorðinn Seðlabankastjóri.