Afturvirk lög gegn neytendum
„Hér er verið að leggja til afturvirkar lagabreytingu,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson Viðreisn á Alþingi vegna ákvæðis í fjáraukalögum þar sem ferðaskrifstofum verði heimilt að endurgreiða fólki ekki ófarnar ferðir.
„Við Íslendingar erum mjög ferðaglöð þjóð og stór hluti Íslendinga hafði ráðgert að fara til útlanda í sumar. Þeim ferðum hefur öllum verið aflýst. Menn munu trúlega ekki ferðast til útlanda á næstu mánuðum. Í mörgum tilvikum voru neytendur búnir að greiða þær ferðir að fullu sem nú hefur verið aflýst. Nú er gripið til þess ráðs með afturvirkum hætti að biðja fólk um að bíða með að ferðast þar til viðkomandi fyrirtæki getur hafið sínar ferðir aftur. Ég held að þarna séu nokkur atriði sem hafi mjög neikvæð áhrif. Ég er sannfærður um að meginþorri þeirra sem hefði fengið endurgreitt núna að fullu núna myndi nota þá fjármuni til að ferðast innan lands.
Meðalmaðurinn fer ekki í tvö dýr sumarleyfi á sama árinu. Við erum í raun að biðja fólk annars vegar um að ferðast innan lands og hins vegar um að sætta sig við að fá ekki endurgreiddar ferðir sem ekki voru farnar. Ég held að þetta muni valda því að innlend ferðamennska verður ekki sú sem menn eiga von á, fyrir utan það að hér er verið að leggja til afturvirkar lagabreytingu. Ferðaskrifstofur voru þegar búnar að lofa viðskiptavinum sínum endurgreiðslu sem nú verður ekki staðið við. Ég held að þetta sé röng aðferðafræði. Ég held að fara þurfi einhverja aðra leið. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir þeim mikla vanda sem ferðaskrifstofur eiga við að etja en það verður að fara aðra leið til að leysa þennan vanda.