- Advertisement -

Guðmundur Franklín í forsetaframboð

Guðmundur Franklín Jónsson ætlar að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.

„Það er mikill misskilningur að hlutverk forseta Íslands einskorðist við að brosa framan í erlenda erindreka og flytja ávarp við hátíðleg tilefni. Embættið á alls ekki að vera til skrauts heldur á forsetinn að vinna með virkum hætti í þágu þjóðarinnar og leita allra leiða við að þjónusta hana og styðja. Þjóðin er hér algert lykilatriði en hvorki Alþingi né aðrir embættismenn eiga nokkurn tímann að vera teknir fram fyrir hag hennar enda eru þeir einnig í þjónustuhlutverki gagnvart henni,“ segir  meðal annars í meðfylgjandi bréfi frá frambjóðandanum.

Kæru Landsmenn.

 Sjaldan hefur sumardagurinn fyrsti verið jafn kærkominn og í ár þegar að baki okkur er þungur vetur með miklum náttúruhamförum. Vetur konungur var grimmur og yggldi sig að þessu sinni og blés til mikilla óveðra en þess á milli skalf jörð, snjóflóð féllu og að lokum þurftum við að berjast við ógnvænlega veiru sem setti allt þjóðfélagið á hliðina. Nú er sumarið í vændum og innan skamms hefjast aðgerðir til að aflétta samkomubanninu og öðrum takmörkunum. Frelsið er handan við hornið og nú er bara að þrauka og virða leiðbeiningar þríeykisins svo ekki þurfi að skella í lás aftur og framlengja bannið.

 Það verkefni sem liggur fyrir okkur á komandi vikum og mánuðum er að snúa hjólum atvinnulífsins aftur af stað en það verður ekki auðvelt verk því eins og við öll vitum þá liggur mestöll ferðaþjónustan í dvala. Ég hef margoft nefnt í pistlum mínum að þrjár stoðir standi undir efnahagslífi landsins; sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta. Álframleiðsla á nú undir högg að sækja vegna slakrar eftirspurnar, sjávarútvegur einnig þar sem veitingahúsarekstur út um allan heim á í erfiðleikum og ekki bætir úr skák þegar ferðaþjónustan liggur líka niðri. Það er þó ekki öll von úti enn því við Íslendingar erum svo ótrúlega kraftmiklir þegar við stöndum saman og hefur sagan sýnt okkur það aftur og aftur.

 Nú hef ég margoft gagnrýnt aðgerðir stjórnvalda og talið þær ekki vera nægjanlegar, nógu almennar eða markvissar. Ég vil hins vegar meina að það sé ekki nóg að gagnrýna heldur þurfi þá jafnframt að benda á aðrar lausnir. Því hef ég sett saman tillögur að efnahagslegu aðgerðarplani sem ég tel að myndi gagnast þjóðinni til heilla og fleyta henni yfir erfiðasta hjallann. 

 Á áttunda áratug síðustu aldar voru samþykkt lög á Alþingi Íslendinga um happdrættislán ríkissjóðs. Snérust lögin um að gefa út skuldabréf sem allir Íslendingar gætu keypt og giltu bréfin  líka sem happdrættismiði. Hægt var að vinna töluverðar upphæðir út á bréfin en ef kaupandinn datt ekki í lukkupottinn fékk hann upphæðina, sem hann lagði út, endurgreidda að 10 árum liðnum. Var happdrættið hvorki framtalsskylt né skattskylt en peningarnir sem söfnuðust, með sölu þessara bréfa, voru m.a. notaðir til lagningar brúar og vegs yfir Skeiðarársand. Þessi einfalda lausn, sem byggði á samstöðu þjóðarinnar, varð til þess að við Íslendingar fengum hringveginn og gátum keyrt hringinn í kringum landið okkar stórbrotna. 

 Þetta sameiginlega átak þjóðarinnar sýnir svart á hvítu hvers við erum megnug þegar við tökum höndum saman. Nú er staðan sú að lífeyrissjóðirnir okkar eru í vandræðum því þeir eru bundnir til að skila a.m.k. 3,5% raunávöxtun á ári hverju og erfitt er að ná því í dag í þessu óvenjulega árferði. Ímyndum okkur því að ríkissjóður gæfi að nýju út ríkisskuldabréf en í stað happdrættis væru bréfin verðtryggð með 3,5% vöxtum. Þarna gætu bæði einstaklingar sem og lífeyrissjóðirnir lagt hönd á plóginn við að safna upp í sjóð og notið jafnframt góðrar ávöxtunar á því fjármagni sem sett væri í sjóðinn. Þessa peninga væri svo hægt að nota í allar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru núna til að koma efnahagslífinu í gang.

 Það sem ég vil gera er ekki bara að skapa atvinnu heldur jafnframt nota peningana til uppbyggingar og verndar náttúrunni. Það hefur lengi vel sætt gagnrýni hversu illa hefur verið búið að ferðamönnunum okkar og hvernig náttúruperlur hafa mátt líða fyrir að ekki hafi verið lagðir stígar, byggðar tröppur, smíðuð hlið, settar niður girðingar, reist salerni og þjónustumiðstöðvar, sett upp upplýsingaskilti eða gerðar ráðstafanir til að anna öllum þeim ferðamönnum sem hingað sækja. Nú er hins vegar lag til uppbyggingar því sjaldan verður jafn fámennt á þessum stöðum eins og einmitt í sumar og því er nauðsynlegt að nýta tækifærið til að dytta að og lagfæra það sem þarf áður en ferðamennskan fer af stað aftur.

 Mikið af ungu fólki sér fram á atvinnuleysi í sumar en þarna á ég við menntaskóla- og háskólafólkið. Þessi hópur hefur treyst á að geta starfað á hótelum, veitingahúsum og öðrum starfsvettvangi sem nú hefur að mestu lagst af og því er mikilvægt að sá hópur verði ekki útundan við aðgerðir stjórnvalda.

 Sú uppbyggingarvinna sem ég nefni væri því einmitt kærkomin fyrir unga fólkið og alla þá sem vilja vinna en næg verkefni ættu að vera fyrir alla. Vinnuflokkurinn þarf svo einhvers staðar að dveljast á meðan á verkefnunum stendur úti á landi og væri þá auðsótt að gera samninga við öll tómu hótelin og sveitagistingarnar og létta þannig undir róðrinum með þeim rekstri. Til viðbótar er svo annar hópur sem ég myndi gjarnan vilja virkja í þessi verkefni og eru það eldri borgarar sem hafa áhuga á að starfa eilítið meðfram eftirlaununum. Þarna er lykilatriði að fella niður allar skerðingar og leyfa þessum reynsluboltum að miðla sinni þekkingu til ungmennanna sem myndu hafa bæði gagn og gaman af. Tengsl milli ungra og aldraðra verða aldrei styrkt um of og tel ég þetta frábært tækifæri til að stuðla að auknum samskiptum milli þessara kynslóða.

Ég vil nefna vinnuflokkana, sem og alla sem taka þátt í að fjármagna verkefnið, Landvættina því þeirra hlutverk er að vernda landið okkar og þjóð. Við höfum öll hag af því að gæta að náttúrunni og við höfum öll hag af því að fólkið okkar hafi atvinnu. Þetta væri fyrsta skrefið í þeirri aðgerðaáætlun sem ég legg til en næsta skref væri að nýta þjóðareignina, Landsvirkjun, til að lækka raforkuverð til heimila, bænda og íslensks iðnaðar.

 Mikilvægi bændastéttarinnar hefur lengi verið vanmetið en það er einmitt hún sem mun sjá okkur fyrir mat ef upp blossar heimsfaraldur, eins og núna, stríð eða aðrar hamfarir sem gera innflutning torveldan. Allt of lengi hefur hallað á þessa mikilvægu stétt með íþyngjandi milligöngumönnum, háu raforkuverði og öðrum afarkostum sem ríkið hefur stuðlað að með lagasetningum og einkennilegum rekstri ríkisfyrirtækja. Þessu þarf að breyta og þessu þarf að breyta strax. Efla þarf búskap og ræktun svo starfandi bændur geti aukið framleiðslu sína og jafnvel hafið útflutning sem og að venjuleg nýliðun geti átt sér stað í stéttinni. Þarna myndu einnig skapast störf og við myndum búa í haginn fyrir framtíðina.

 Þriðja atriðið er svo húsnæðislánin og verðtryggingin en hún mun reynast heimilunum og fyrirtækjum þungbær þegar harðnar á dalnum og verðbólgan fer af stað. Það er því algjört lykilatriði að taka hana strax úr sambandi á húsnæðislánum sem og vextina. Einnig er mikilvægt að lengja í þessum lánum og setja næstu afborgun ekki fyrr en eftir 18 mánuði. Með þessu móti hjálpum við heimilunum og fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann.

 Til viðbótar við þetta þarf að leggja niður fasteignagjöld næstu 24 mánuði, hækka skattleysismörkin í 300 þúsund til að styðja við bakið á tekjulægstu hópunum og fella niður allar tekjutengingar og skerðingar. Eins eigum við að gefa handfæraveiðar frjálsar—fiskinn á diskinn. Íslenska þjóðin á 1000 milljarða í gjaldeyrisvaraforða sem þarf að spara og nota einvörðungu fyrir nauðsynjavöru næstu 36 mánuðina, eins og lyfjum. Ég tel að þessar aðgerðir myndu fleyta þjóðinni vel af stað í að komast eins greiðlega og unnt er í gegnum þá efnahagserfiðleika sem fylgja veirunni.

 Víkjum nú að því hvers vegna ég kallaði til þessa fundar og er það vegna þess að eftir nokkra íhugun og mikla hvatningu hef ég ákveðið að bjóða mig fram til forseta Íslands. Framboð mitt mun í meginþáttum snúast um að efla forsetaembættið, nýta málskotsréttinn og leggja mitt af mörkum til að berjast gegn spillingu.

 Það er mikill misskilningur að hlutverk forseta Íslands einskorðist við að brosa framan í erlenda erindreka og flytja ávarp við hátíðleg tilefni. Embættið á alls ekki að vera til skrauts heldur á forsetinn að vinna með virkum hætti í þágu þjóðarinnar og leita allra leiða við að þjónusta hana og styðja. Þjóðin er hér algert lykilatriði en hvorki Alþingi né aðrir embættismenn eiga nokkurn tímann að vera teknir fram fyrir hag hennar enda eru þeir einnig í þjónustuhlutverki gagnvart henni.

 Það þarf að breyta hugsunarhættinum á Íslandi því allt of lengi hefur það viðgengist að spillingin fái að grassera og ráðamenn standi aðgerðalausir hjá. Þjóðin, fólkið mitt og börnin mín, hefur ítrekað þurft að kyngja því að stórar upphæðir séu hafðar út úr þjóðarbúinu. Okkur hefur svo liðið eins og við getum ekkert gert, sama hvað við kjósum þá endi þetta alltaf eins. Þessu skulum við breyta. Við þurfum ekki að sætta okkur við þetta.

 Það er til fólk sem styður ekki spillingu og mun ekki sætta sig við hana. Það er til fólk sem er tilbúið til að breyta þessu og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að kollvarpa þessum illu öflum. Ég er einn af þeim. Ég get ekki horft upp á þetta lengur og ég segi hér með spillingunni stríð á hendur.

 Ég heiti því og legg við drengskap minn að verði ég forseti mun orkupakki fjögur og fimm ekki fara í gegnum mig heldur fær þjóðin að kjósa um þá. Eins heiti ég því að ESB verði aldrei samþykkt án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla mér að berjast fyrir þjóðina og hætta ekki fyrr en þjóðin fær að eiga sínar auðlindir og sinn auð sjálf. Ég ætla að tryggja að hún sé vel upplýst í öllum málum og fái að taka sem mestan þátt í málefnum sem hana varðar. Mitt framboð er gegn spillingu, með auknu gagnsæi, með beinu lýðræði og fyrir þjóðina. Þetta er það sem ég stend fyrir sem forsetaframbjóðandi og sem manneskja.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: