Hátekjudónarnir við Austurvöll
„Ég hef undanfarnar vikur sent bréf og skilaboð á ráðherra og þingmenn þar sem ég hef ítrekað að nú verði stjórnvöld að taka utan um fatlað og langveikt fólk og bæta úr þeirri brýnu framfærsluþörf sem hópurinn býr við. Ég hef ekki fengið samtal frá einum ráðherra eða þingmanni. Enginn þessara aðila virðist hafa nokkurn áhuga á því að vinna að málum sem eru þó algjörlega stjórnvalda að sameinast um. Fatlað og langveikt fólk hefur engar varnir aðrar en stjórnvöld, enda er það skylda stjórnvalda að ákvarða framfærslu fatlaðs og langveiks fólks. Engir aðrir koma að þeim kjarasamningum.“
Þetta er ekki tilbúningur. Þetta er staðreynd. Þetta er hárbeitt lýsing á framkomu þingmanna og ráðherra. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, skrifaði þessi orð.
Þessi staðreynd lýsir hroka og mannfyrirlitningu. Ekkert minna. Þuríður Harpa er talsmaður þess fólk sem veikast stendur og verst er statt. Fólkið sem er sífellt skilið eftir.
Brýn nauðsyn er á að hækka grunnlífeyri örorkulífeyris sem hefur ekki verið leiðréttur frá hruni. „Bilið sem hefur myndast milli lágmarkslauna og örorkulífeyris er nú nær 100.000 kr. Árið 2007 voru lágmarkslaun og örorkulífeyrir á pari. Aðgerðaráætlun stjórnvalda og tímalína varðandi hækkun örorkulífeyri til jafns við lágmarkslaun. Nauðsynlegt að sjá að unnið sé að því að ná markmiðum.“
Meðan skerðingar á afkomu öryrkja og eldri borgara eru um sextíu milljarðar á ári, svarar þingheimur ekki pósti frá formanni Öryrkjabandalagsins, sem reynir hvað hún getur til að fá áheyrn. En fær ekki.
-sme