Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður Viðreisnar skrifar: Núverandi ríkisstjórn hefur verið óvenju undanlátssöm við útgerðina. Árið 2013 sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, í ræðu á Alþingi: „Ég hitti úti á Austurvelli áðan góða vinkonu mína frá Flateyri. Hún spurði hvað verið væri að ræða núna inni á Alþingi, það eru kannski ekki allir sem fylgjast mjög vel með störfum Alþingis í sumarblíðunni. Ég sagði henni að við værum að ræða lækkun veiðigjalda. Þá sagði hún og sló sér á lær: Jæja, eiga þeir nú ekki salt í grautinn, blessaðir útgerðarmennirnir, það er kannski ekkert nýtt. En það er í lagi að þeir greiði af sínum auði þegar við sem erum ekki eins auðug þurfum að standa skil á okkar af okkar lágu tekjum.“
Grein Benedikts er að finna í Mogga dagsins.
„Fimm árum síðar sagði í fyrirsögn hjá Vísi : „Lækkun veiðigjalda þolir enga bið að sögn formanns atvinnuveganefndar“. Í fréttinni kemur fram að þessi formaður atvinnuveganefndar er engin önnur en hin sama Lilja Rafney, sem nú hafði færst í nýjan stól og sá vel að blessaðir útgerðarmennirnir áttu ekki lengur fyrir salti í grautinn.
Þess vegna vakti það athygli þegar forsætisráðherra sagði í liðinni viku í umræðum á Alþingi: „En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“ Fjármálaráðherra bætti um betur: „Reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“
Reikningurinn var reyndar kominn frá greininni, fimm útgerðir höfðu krafið ríkið um 10,2 milljarða króna í bætur, auk hæstu leyfilegra dráttarvaxta. Líklega meinti ráðherrann að greinin yrði sjálf að borga reikninginn.
Forsaga málsins er sú að Hæstiréttur dæmdi árið 2018 að úthlutun makrílkvóta á grundvelli reglugerðar sem sjávarútvegsráðherra VG setti árið 2010 væri ólögleg. Því hefði verið eðlilegt að VG bæri ábyrgð á ráðherra sínum og greiddi reikninginn.
Samt vakti einörð afstaða ráðherranna og hugprýði gagnvart útgerðinni aðdáun margra. Sú aðdáun bliknaði auðvitað ekkert, þó að síðar kæmi í ljós að daginn sem ummælin féllu hafði stærsti kröfuhafinn þegar ákveðið að falla frá sinni kröfu og sagt ráðherra frá því.“