- Advertisement -

Olíuverð hrynur – en ekki á Íslandi

Ég á nú ekki vona á því að þessar verðbreytingar munu endurspeglast í bensínverði á Íslandi.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Olíuverð tók mikla dýfu í gær í framvirkum samningum vegna afhendingar í maí og fór verðið um tíma niður fyrir -40USD, þ.e. hægt var að „selja“ samningana með því að greiða 40 USD með hverri tunnu! Ástæðurnar eru líklegast margar, en helstar eru að í gær var síðasti dagur til að eiga viðskipti með framvirka samninga fyrir maí á markaði, eftirspurn hefur dregist saman, geymslur eru að fyllast og ekki er hægt að semja sig frá þessum samningum.

Ég reikna með að flestir hafi búist að markaðurinn myndi hressast í dag, en svo er alls ekki a.m.k. til að byrja með. Verðfallið í gær var eingöngu á svo kölluðum WTI-markaði, þ.e. í Texas, en náði ekki til Brent, sem er olía frá Norðursjó og heimsmarkaðsverð miðast almennt við. Núna er pestin komin yfir hafið og hefur Brent olían fallið um 23% þegar þetta er skrifað. Það sem meira er, að framvirkir samningar fyrir júní á WTI byrjuðu daginn á því að hrynja um yfir 50% í verði, þó einhver viðsnúningur hafi orðið síðan (þegar þetta er skrifað).

Ég á nú ekki vona á því að þessar verðbreytingar munu endurspeglast í bensínverði á Íslandi, því olíufélögin munu örugglega vilja sjá þróunina yfir lengri tíma. Það er þetta kunnuglega, að það tekur lengri tíma að færa verðið niður en sambærileg breyting olli hækkuninni áður. Góðu fréttirnar fyrir bíleigendur eru þó, að framvirkir samningar fyrir næstu 12 mánuði hafa allir lækkað mikið í dag, svona á bilinu 15-20%. Það segir til um hvernig kaupendur sjá verðþróun olíu næsta árið.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: