Heimilin eiga líka í rekstrarvanda
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, skrifar nýja grein, þar sem hún spyr, líkt og svo margir aðrir, hvað næsti aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar kom til með innihalda.
Við bíðum öll eftir næsta aðgerðarpakka sem ríkisstjórnin segir að sé á leiðinni. Það skiptir miklu máli hvað stjórnvöld ákveða að gera fyrir fólk og fyrirtæki í miklum vanda og að hvernig samfélagsgerð þau stuðla eftir COVID-19.
Í pakka ríkisstjórnarinnar verða að vera frekari aðgerðir fyrir minni fyrirtæki, námsmenn, viðkvæma hópa og heimili. Heimili eiga í rekstrarvanda ekki síður en fyrirtæki.
Um leið og unnið er gegn atvinnuleysi verður að vinna gegn aukinni fátækt. Þess vegna verða stjórnvöld að hækka atvinnuleysisbæturnar sem eru langt undir lágmarkslaunum. Það að þarf líka að sjá til þess að barnafjölskyldur sem verða fyrir miklu tekjutapi vegna COVID-19 fái barnabætur. Og greiðslur almannatrygginga þurfa að hækka til jafns við lífskjarasamningana til að bæta stöðu öryrkja og eldri borgara sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar. Slíkt mál er nú þegar komið til velferðarnefndar sem forgangsmál Samfylkingarinnar.
Sveitarfélögin gegna stóru hlutverki og þau missa tekjur líkt og ríkið. Á sama tíma eru gerðar kröfur til þeirra um aukin útgjöld. Það verður að gera sveitarfélögum kleift að sinna börnum, fötluðum og öldruðum og tryggja sterka félagsþjónustu við þessar erfiðu aðstæður.
Setja þarf enn hærri fjárhæðir til sóknaráætlana landshluta, einkum í menningarhlutann og til nýsköpunar. Listamenn hafa misst tækifærin til tekjuöflunar um stund og stjórnvöld ættu að efla menningarlíf í ástandinu út um allt land.
Margar sögur er hægt að segja um vanda fyrirtækja í ferðaþjónustu. Sum þeirra þurfa að greiða fyrirframgreiddar pantanir til baka, stundum með yfirdrætti á háum vöxtum og bera einnig kostnað vegna falls krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Vandinn vefur upp á sig með ýmsum hætti og óvissa um framtíðina algjör.
Fastur kostnaður fyrirtækja gufar ekki upp þó starfsemin liggi niðri vegna samkomubanns eða vegna þess að engin eftirspurn er eftir starfseminni um stund. Fyrirtækja sem geta jafnvel hafið fulla starfsemi þegar faraldurinn er genginn yfir og sum fyrr. En þau munu ekki geta borið kostnaðinn eða velt honum á undan sér án stuðnings stjórnvalda.
Síðast en ekki síst:
Seðlabanki Íslands hefur gert bönkunum kleift að vinna með fólki og fyrirtækjum og ríkisstjórnin lofað lækkun bankaskatts. Lækkun stýrivaxta á að nýtast öllum. Ríkisstjórnin þarf að gera þá skýlausu kröfu til banka að þeir lækki yfirdráttarvexti tafarlaust og frysti húsnæðis- og bílalán þeirra sem misst hafa vinnuna eða orðið fyrir miklu tekjutapi vegna samkomubanns eða annarra afleiðinga faraldursins. Bankar eiga hvorki að fá að keyra fyrirtæki né heimili í þrot við þessar aðstæður heldur gefa góð ráð um valkosti til að bæta stöðuna.