- Advertisement -

Mikill munur á verðskrám banka

Erfitt er fyrir neytendur að bera saman gjöld milli banka. Bankar beina viðskiptavinum í æ meira máli að heimabönkum. Mikill munur er á kostnaði milli banka og er Landsbankinn að rukka minnst en Arion banki mest. Augljós tilhneiging er að fjölga gjöldum fyrir allskyns viðvik. Sérstaka athygli vekur að Arionbanki ætlar að hefja gjaldtöku 1.mars fyrir afgreiðslu hjá gjaldkera.

Á síðu Neytendasamtakanna má sjá að kvartanir vegna hækkana á gjöldum og nýrra þjónustugjalda bankanna berast reglulega til Neytendasamtakanna, en samtökin hafa fylgst með verðlagi bankaþjónustu um áraraðir. Nýlega hefur athyglin beinst að nýjum gjöldum fyrir þjónustu í útibúum og tilhneigingu banka til að beina viðskiptamönnum í rafræna sjálfsafgreiðslu. Bankarnir hafa þá spurt hvort allir viðskiptavinir eigi að bera kostnaðinn vegna þeirra sem ekki nýta hagkvæmustu leiðirnar í bankaþjónustu.

Verðskrár bankanna eru margar blaðsíður með gjaldaliðum í hundraðatali þannig að erfitt er fyrir neytendur að átta sig á hvaða viðvik eru gjaldfærð og hver ekki, en ljóst er að fleiri og fleiri viðvik bankans eru orðin að gjaldliðum. Neytendasamtökin hafa því rýnt í verðskrár þriggja banka, Arionbanka, Íslandsbanka og Landsbanka á 7 ára tímabili. Eingöngu voru skoðaðir algengir þjónustuliðir fyrir neytendur og atriði sem mikið hefur verið kvartað til samtakanna vegna, eins og kostnaður vegna geymsluhólfa og gjafakorta.

Í ljós kom að mikill munur á er kostnaði við lántöku milli banka. Mesti verðmunur er á gjöldum fyrir að útbúa skuldabréf og greiðslumat, þar sem Landsbankinn er lægstur og Arionbanki hæstur. Minni munur er á milli tilkynninga og greiðslugjalda, en kostnaður við það safnast fljótt saman. Neytendur ættu því að íhuga leiðir til að spara þar, t.d. með því að hafa færri gjalddaga á ári og fá rafrænan seðil í heimabankann frekar en með póstsendingu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Landsbankinn hefur verið með óbreytt gjald í 7 ár vegna skuldabréfa og greiðslumats og umsýslugjalds fyrir þinglýsingu og veðbókarvottorða. Það er annað uppi á teningnum hjá hinum bönkunum þar sem þau hafa hækkað frá 33-75%.

Þegar gjöld vegna debetkorta og veltureikninga eru skoðuð má sjá að helsti munur er á árgjöldum debetkorta þar sem Arionbanki er hæstur og Landsbankinn lægstur . Hjá öllum bönkunum fá viðskiptavinir með vildarkjör afslátt af árgjaldi og fríar debetkortafærslur upp að ákveðnum fjölda. Það er einnig mikill munur á gjöldum fyrir úttekt af debetkorti erlendis milli banka en Arionbanki tekur 2,75% og 650 kr.í lágmarksupphæð á meðan hinir bankarnir taka 2% og enga lágmarksupphæð.

Í verðskrám bankanna finnast margvísleg gjöld og ekki einfalt að bera þau saman. Augljós tilhneiging er að fjölga gjöldum fyrir allskyns viðvik. Sérstaka athygli vekur að Arionbanki ætlar að hefja gjaldtöku (1.mars nk.) fyrir afgreiðslu hjá gjaldkera og beina þannig viðskiptavinum í sjálfsafgreiðslu gegnum tölvur. Ekki er ólíklegt að aðrir bankar fylgi í kjölfarið, enda virðist Arionbanki vera leiðandi með nýja gjaldskrárliði og þjónustu.

Það er ýmis kostnaður sem leggst á kreditkortanotkun og margir neytendur átta sig ekki alltaf á því. Vegna mismunandi skilmála og ólíkra tegunda korta verða ekki borin saman árgjöld þeirra kreditkorta sem bankarnir gefa út. Það er nokkur munur á hæsta og lægsta verðir á tilkynningar og greiðslugjöldum þar sem Landsbankinn er í langflestum tilvikum ódýrastur.

Annað sem neytendur ættu að vera meðvitaðir um er að vaxtamunur í íslenskum bönkum er hærri en í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Jafnvel þó stýrivaxtalækkun á síðasta ári hefði átt að auka hag viðskiptavina bankanna hefur það ekki orðið, eins og bæði ASÍ og VR hafa bent á. Þannig fá viðskiptavinir verri ávöxtun fyrir sparifé sitt og greiða meira fyrir lánsfjármagn.

Sjá nánar á heimasíðu Neytendasamtakanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: