Hreppsnefnd Tjörneshrepps er meðal fjölmargra sem hafa sent inn athugasemdir vegna fyrirhugaðra fækkun sveitarfélaga.
„Ráðherra málaflokksins hefur látið hafa eftir sér að frumvarpið sé sett fram til þess að snúa við íbúaþróun á landsbyggðinni sem hefur verði neikvæði víðast hvar eins og vel er skrásett. Þetta eru líkast til ein verstu rök sem sett hafa verið fram í íslenskum stjórnmálum þar sem nú þegar er búið að sameina mörg sveitarfélög á landsbyggðinni á svæðum þar sem íbúaþróun hefur verið mjög neikvæð. Sameining sveitarfélaganna hefur ekki haft nein áhrif á íbúaþróun þessara svæða og vandséð hvernig það getur breyst einungis vegar þess að ráðherrann segir að það muni gerast,“ segir í umsögn hreppsnefndar Tjörneshrepps.
„Eitt af af stóru markmiðum með þessu framlagða frumvarpi er hagræðing í rekstri sveitarfélaga. Þannig hafa verið nefndar til sögunnar upphæðir sem sparist muni ekkert sveitarfélag verða fámennara en 1000 manns. Þetta er í nokkru ósamræmi við reynsluna en svo virðist sem útgjöld hafi hlutfallslega aukist hjá þeim sveitarfélögum sem hafa sameinast,“ segir þar.
Í lokin segir hreppsnefndin: „Þó verður að setja fram það álit Hreppsnefndar að okkar tilfinning er að ekki sé sagan öll sögð í þessum gjörningi ráðherrans og raunveruleg ástæða fyrir þessu frumvarpi sé aldrei sett fram. Málið er ótrúverðugt að öllu leyti.“
-sme