- Advertisement -

Heilsutorg fyrir háskólanema

Heilsutorg háskólanema hefur opnað aftur eftir jólafrí og verður það starfandi til 26.mars nk. Þjónustan opnaði formlega í október en þar geta nemendur Háskóla Íslands sótt sér heilbrigðisþjónustu sem veitt er af framhaldsnemum við Heilbrigðisvísindasvið undir handleiðslu leiðbeinanda.

„Heilsutorg Háskóla Íslands er þverfræðileg og víðtæk heilbrigðisþjónusta fyrir alla nemendur skólans sem nemendur í heilbrigðisgreinum við háskólann veita,“ segir verkefnisstjórinn Mardís Karlsdóttir um Heilsutorgið „Starfsemi Heilsutorgs verður veitt með göngudeildarþjónustu við Heilsugæslustöðina í Glæsibæ þar sem ætlunin er að mæta heilbrigðisþörfum stúdenta, hvort sem um er að ræða í forvörnum eða meðferð. Þarna geta nemendur háskólans því sótt margvíslega heilbrigðisþjónustu fyrir einungis tólf hundruð krónur,“ segir Mardís, sem er í doktorsnámi í sálfræði en doktorsrannsókn hennar snýst um að skoða viðbrögð hjarta- og æðakerfisins við sálfræðilegri streitu hjá heilbrigðu fólki með fjölskyldusögu af heilablóðfalli.

Mardís segir að á Heilsutorginu sé áhersla lögð á þverfræðilegt samstarf heilbrigðisgreina. „Þarna er unnið í þverfræðilegum teymum þar sem heilbrigði nemandans er miðpunktur. Þeir sem sinna sjúklingum eru nemendur í hjúkrunarfræði, ljósmóðurfræði, læknisfræði, lyfjafræði, matvæla- og næringarfræði, sálfræði, sjúkraþjálfun og tannlæknisfræði.“

Mardís segir að hugað verði jafnt að andlegu sem líkamlegu heilbrigði. „Sem dæmi um þjónustu má nefna fyrsta stigs forvarnir en þá er viðkomandi án einkenna. Gert verður heilsumat, veitt fræðsla og farið í fyrirbyggjandi aðgerðir til að viðhalda og efla heilsu. Einnig verði sinnt annars stigs forvörnum þar sem viðkomandi hefur einhver einkenni sem geti t.d. tengst ofþyngd, háþrýstingi eða einhvers konar vanlíðan. „Svo verða veittar meðferðir eða þriðja stigs forvarnir þar sem einkenni eru til staðar hjá nemendum sem koma á torgið, veikindi eða þekktir sjúkdómar. Þeim sem þurfa sérhæfðari þjónustu verður vísað til viðeigandi aðila í heilbrigðiskerfinu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Heilsutorgið verður starfrækt alla þriðjudaga og fimmtudaga frá 3. febrúar til 26. mars eins og áður sagði frá klukkan 16.00 til 18.00. Nauðsynlegt er að panta tíma fyrir fram en það er hægt að gera á heimasíðu þjónustunnar.

http://heilsutorg.hi.is/

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: