Trjáfaðmlög eyðileggja fjölskyldur
Eitt kvöldið hafi hún komið að honum á klósettinu þar sem hann sat með flísatöng og fjarlægði flísar um allan kroppinn.
Halldór Árni Sveinsson skrifar:
Mikið hefur mætt á nýskipuðum lögreglustjóra á Austurlandi, Margréti Maríu Sigurðardóttur, vegna hrinu skilnaðarmála sem upp hafa komið upp í umdæmi hennar á síðustu dögum, vegna hvatningar málsmetandi aðila í samfélaginu um að faðma tré. Margrét María kom til starfa 1. apríl, og strax fyrstu þrjá daga hennar í starfi höfðu borist 9 beiðnir um lögskilnað frá hjónum á Egilsstöðum og Fellabæ, en starfsstöð Margrétar Maríu er á Fáskrúðsfirði.
Þríeykið landsfræga, sem nú hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna með gamla smellinum „Góða ferð“ með BG og Ingibjörgu Guðmundsdóttur, hvatti einmitt landsmenn til að faðma tré í daglegum skemmtiþætti sínum í síðustu viku, og er því ábyrg fyrir þessum faraldi, að mati virkjunarsinna hér á landi, sem kalla sig Bormenn Íslands, að mati talsmanns þeirra, Vernharðs Bernharðssonar á Ísafirði. Vernharður, sem nú er á fimmtugsaldri, man vel eftir Baldri Geirmundssyni og hljómsveit hans, svo og Villa Valla rakara líka. Hann telur reyndar að öll þessi aðgerð sé runnin undan rifjum andstæðinga virkjana á Íslandi, sem hafi einsett sér með að nota COVID 19 fárið til að eyðileggja frekari virkjunarform, ekkert sé hægt að þoka neinum virkjunum áfram þegar öll athygli er annars staðar. Máli sínu til stuðnings bendir Vernharður á nöfn þremenningana; Alma er auðvitað kvenútgáfa trjánafnsins Álmur og ekki þurfi neinn að velkjast í vafa um skoðanir manns í umhverfismálum sem heitir Víðir Reynisson. Hann heiti svo gott sem Tré Trjáson. Þórólfur sé svo örugglega nafn á einhverri norskri trjátegund. En þetta útspil að hvetja landsmenn að faðma tré slái út alla aðra vitleysu.
Hið virta og óháða dagblað, DV, ræðir í dag við eitt fórnarlambið í þeim siðferðisbresti sem þessi trjáafaðmlög hafa leyst úr læðingi. Ösp Eikar- og Hlynsdóttir er 42 ára grunnskólakennari sem býr í fallegu einbýlishúsi við Skógarbakka á Egilsstöðum. Hún er gift Berki Birkissyni húsasmiði og eiga þau fjögur börn. Ösp telur hjónaband sitt hafa oftast verið ástríkt og hamingjusamt þessi tuttugu ár sem þau hafa verið gift. Auðvitað hafi komið upp krísur hjá þeim eins og öðrum, en síðustu vikur hafi sér virst eins og Börkur sé áhugalaus á heimilinu, komi seint heim og sé mjög fjarrænn. Þá hafi hann fundið að útliti hennar, t.d. sagt að hún væri með appelsínuhúð á lærum og rassi. Henni hafi auðvitað sárnað þetta og keypt sér cellulitekrem fyrir jól sem hún beri á þessi svæði kvölds og morgna. Hann segist oft hafa verið að vinna frameftir, en hún hafi tekið eftir því að bíllinn hans hafi ekki verið þau kvöld á verkstæðinu. Eitt kvöldið hafi hún komið að honum á klósettinu þar sem hann sat með flísatöng og fjarlægði flísar um allan kroppinn. Hún spurði hvað hann hefði verið að gera, en hann sagðist hafa fengið þessar flísar við smíðavinnu.
Á mánudagskvöldinu hafi hún elt hann út á Hallormsstað, lagt bílnum sínum við veginn og læðst hljóðlega á eftir honum inn í stórt rjóður. Hún trúði ekki sínum eigin augum þegar hún sá Börk faðma innilega risastóra furu og láta vel að henni á mjög ástleitinn hátt. „Furan var með ógeðslega grófan börk,“ snökti Ösp, „svo getur hann verið að tala um appelsínuhúð á rassinum á mér“ Blaðamaður réttir henni tissjú. „Og nú vill Börkur skilja við mig og fara búa með þessari Furu eða hvað hún heitir, og hefur sótt um leyfi hjá skógarverðinum að taka hana upp með rótum og flytja hana í lítið timburhús hérna í bænum þar sem hann ætlar að búa með henni. Hann hefur meira að segja sótt um kenntitölu fyrir hana í Þjóðskrá.“ Aðspurð sagðist Ösp hafa leytað til Asks Yggdrasils sálfræðings, sem boðist hefur til að greina vandann og reyna að leita sátta, en Börkur neiti að koma í tíma til hans. “Hvað á ég eiginlega að segja börnunum mínum? Að pabbi þeirra vilji frekar búa hjá einhverjum trjábol, einhverri spýtukellingu?“
Margrét María segir að tilfellunum fjölgi daglega, og þau séu ekki síður dapurleg en í tilfelli Aspar og Barkar. Nágrannar þeirra eru slegin, og fólk sé jafnvel farið að tala um að rétt sé að loka stærri skógum að kvöld- og næturlagi. Sumir hafi gengið svo langt að krefjast þess að banna alla skógrækt og félög sem hafa slíkt á sinni stefnuskrá. Margrét María segist að sjálfsögðu ekki getað tekið undir slík sjónarmið, en henni finnist að þremenningarnir eigi þess í stað að hætta að hvetja fólk til að faðma tré. Vera bara heima og faðma bara hvort annað. En kalla megi þennan faraldur fyrstu timburmenn þjóðarinnar af þessum veirufaraldri.
Blaðamaður hringdi í Jónatan Garðarsson, formann Skógæktarfélags Íslands, sem var reyndar á neyðarfundi í gróðrarstöð Hafnarfjarðarfélagsins, Þöll. Hann sagðist verða með fjarfund með stjórninni í kvöld, þar sem þessi staða yrði rædd og til hvaða ráða skógræktarfélögin gætu gripið til. Félagar hans í Skógræktarfélagi Hafnarjarðar hafa þegar ákveðið að starfsmennirnir þeir Steinar Björgvinsson og Árni Þórólfsson gangi vaktir á kvöldin í Höfðaskógi, svo siðferðisspjöll af þessu tagi verði ekki liðin. „Þetta er vissulega áfall“ sagði Jónatan. „Það hefur verið sérstaklega gefandi að fylgjast með litlu hríslunum vaxa upp og verða falleg tré með öllum sínum þokka og fegurð“ Og bætti svo við; „Heyrðu annars, slepptu þessu sem ég sagði núna síðast. Vil ekki að þetta misskiljist eða að Rósa heyri þetta haft eftir mér“. Að sjálfsögðu varð blaðamaður DV ekki við þeim tilmælum.