- Advertisement -

Fólkið sem „ekki býr til hagvöxtinn“

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Sólveig Anna Jónsdóttir:
Þau sem vinna við að passa upp á annað lifandi fólk eru því sem næst einskis virði.

Ég ræddi við konu fyrir nokkrum dögum, félagsmann í Eflingu sem vinnur við að aðstoða og hjálpa gömlu fólki. Ég spurði hana hvernig gengi. „Það gengur ágætlega, en gamla fólkið er orðið þreytt. Allt félagsstarfið þeirra hefur fallið niður. Og þau borðuðu saman en nú er það ekki hægt. Sum fá enga heimsókn nema mig. Þannig að ég læri núna nýjan brandara á hverjum degi. Á morgnana áður en ég fer að vinna skoða ég barandarasíður á Facebook og legg svo einn brandara á minnið. Það er gott fyrir okkur að hlæja saman.“ „En frábært hjá þér“, sagði ég, „við þurfum kannski að fara að berjast fyrir sérstöku brandaraálagi í kjaraviðræðum“. Þegar hún sagði mér frá deginum sínum varð ég stolt og glöð yfir því að tilheyra sömu stétt og hún, stétt láglaunakvenna sem vinna við að annast annað lifandi fólk, en líka döpur; yfir þeim byrðum sem þessi hræðilegi faraldur leggur á fólk, yfir því að í samfélaginu okkar er gamalt fólk sem er algjörir einstæðingar og yfir því að konan sem lærir nú brandara á hverjum degi til að færa fólki aðeins meiri birtu í lífið sitt tilheyrir hópi þeirra lægst launuðu á íslenskum vinnumarkaði. Konan sem ég talaði við vinnur hjá sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hálaunafólk fer með völd, hálaunafólk sem trúir því að starfsfólk sveitarfélaganna, fólkið í umönnunarstörfunum, fólkið sem vinnur við að þrífa og ræsta, fólkið sem tekur sorpið „búi ekki til hagvöxtinn“ eins og það var orðað á einum samningafundi af fínum manni fyrr í vetur. Og þess vegna sé í lagi að hafa þau á smánarlegum launum. Og ekki aðeins í lagi, heldur einfaldlega skylda ábyrgra stjórnenda sem vita hvað er þess virði að setja peninga í og hvað ekki.

Stundum finnst mér svo ótrúlegt að mikill fjöldi þeirra sem sinna umönnunar og tilfinningavinnu á Íslandi tilheyri hópi þeirra lægst launuðu á vinnumarkaðnum. En oftast finnst mér það bara rökrétt niðurstaða; mýkt, mildi og mannúð hafa verið gerð útlæg úr öllum útreikningum um hvað skiptir máli, það að sýna að þú hugsir stöku sinnum um eitthvað annað en hagvöxtinn er ekki í boði, ef þú vilt ráða þarftu að sýna að þú vitir að niðurstaðan í reikningsdæminu verði alltaf að vera sú sama og alltaf fyrir fram gefin: Þau sem vinna við að passa upp á annað lifandi fólk eru því sem næst einskis virði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég vona að við getum komist sem allra fyrst af þeim stað að samþykkja að þetta sé niðurstaða hinna samfélagslegu útreikninga. Það má einfaldlega ekki bíða lengur. Sjálfsvirðing okkar sem mannfólks getur ekki leyft það.

Greini er fengin af Facebooksíðu Sólveigar Önnu.



Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: