- Advertisement -

Slæm meðferð hrogna

Ábendingar um slæma meðferð á hrognum hafa borist Matvælastofnun og segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar að þörf sé á átaki meðal sjómanna, slægingarstöðva og fiskmarkaða um bætta meðhöndlun. Matvælastofnun mun á næstu vikum skoða meðferð hrogna við löndun, í slægingarstöðvum, fiskmörkuðum og hjá verkendum og grípa til viðeigandi aðgerða ef þörf er á.

Allir aðilar sem koma að meðferð og dreifingu matvæla eru ábyrgir fyrir réttri meðferð sem tryggir öryggi og gæði matvæla. Mikilvægust er rétt meðferð og frágangur við slægingu um borð í skipum eða slægingarstöð. Segir í fréttinni að mikilvægt sé að halda mismunandi tegundum aðskildum og ef hrogn eru t.d seld sem þorskhrogn eigi hrognin því að vera úr þorski. Ef tegundum er blandað saman skal merkja þau sem blönduð hrogn og tilgreina tegundir. Annað er blekkjandi fyrir kaupendur. Skv. 11 grein laga nr. 93/1995 um matvæli er óheimilt að hafa matvæli á boðstólum eða dreifa þeim þannig að þau blekki kaupanda að því er varðar uppruna, tegund, gæðaflokkun, samsetningu, magn, eðli eða áhrif.

Einnig er bent á að reglugerð nr. 1379/2013 um markaðssetningu fisks og fiskafurða (CMO regulation) hefur tekið gildi í Evrópu og verða fyrirtæki sem setja vörur á markað í Evrópu að merkja í samræmi við kröfur hennar.

Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.

 

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: