Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, fann að ýmsu, í þingræðu, um aðgerðir ríkisstjórnarinnar, vegna kórónaveirunnar.
„Hér er talað um verkefni á ábyrgð Ríkiseigna, viðhald á ýmsum fasteignum á vegum ríkisins. Á einum stað stendur: „Endurskipulagning á vinnurýmum Stjórnarráðsins.“ Hversu mörg störf mun endurskipulagning á vinnurýmum Stjórnarráðsins skapa?
Hér er líka talað um hönnun og endurbætur á þingsal. Ég veit ekki hvað á að endurbæta í þessum ágæta þingsal. Vonandi munu einhverjir fá vinnu við að mála eða bólstra upp á nýtt en þetta er bara ágætur salur.
Á bls. 7 stendur síðan að áformað sé að byggja nýja hjúkrunardeild á Húsavík. Þau áform hafa væntanlega verið til í þó nokkurn tíma. Eru til teikningar? Verður tryggt að farið verði í þetta verkefni sem er mjög mikilvægt? Af hverju er þá ekki meira af byggingarframkvæmdum í þessum tillögum, t.d. að byggja fleiri hjúkrunarrými sem vantar víða um land?
Á bls. 8 er talað um hönnun og undirbúning á alls konar jarðvinnuframkvæmdum. Er um að ræða hönnun og undirbúning sem Vegagerðin mun sjá um og fara þá fjármunir til Vegagerðarinnar eða munu verkfræðistofur úti í bæ sjá um þetta allt saman?
Hér segir aftur um Vegagerðina, með leyfi forseta:
„Í kjölfar óveðurs í vetur er þörf á endurnýjun ýmissa kerfa og mæla. Upplýsingagátt vega, upplýsingakerfi um veður og sjólag, endurnýjun öldudufla …“
Virðulegur forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta á að búa til þau störf sem við þurfum á að halda. Í þetta eiga að fara 150 milljónir sem eru kannski ekki svo há tala en þetta eru samt fjárfestingarverkefni og ég fæ ekki alveg séð hvaða máli þetta skiptir til að reyna að búa til störf í því mikla atvinnuleysi sem er augljóslega fram undan — að endurnýja ölduduflsmæla.
Á bls. 9 er talað um að hraða innviðauppbyggingu til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Ég ætla að fá að lesa setninguna:
„Markmið verkefnisins er að hraða innviðauppbyggingu til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum á landi og haftengdri starfsemi.“
Í hvað eiga þessir fjármunir að fara? Eiga þeir að fara til fyrirtækja eins og Orku náttúrunnar sem er að reisa hleðslustöðvar eða í hvað á þetta að fara?
Síðan stendur hér:
„Sérstaklega verður horft til bílaleiga og þungaflutninga á landi og rafvæðingar hafna.“
Í allan þennan pakka eru 500 milljónir. Inni í þessu er líka átak til bindingar kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Það er vandséð hvað á raunverulega að gera í þeim verkum sem þarna eru talin upp. Hvernig ætla menn að búa til störf í bílaleigum og þungaflutningum á landi?
Síðan er ein tillagan, virðulegur forseti:
„Uppbygging á aðstöðu fyrir þjóðgarða. Til skoðunar er að byggja upp og bæta aðstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs við Skaftafell. Einnig er til skoðunar að byggja upp aðstöðu við Mývatn.“ — Þarna eru 300 milljónir.
Síðan er einhver besta framkvæmdin, ég verð að segja eins og er að menn fá gríðarlega mikið fyrir peningana með tillögu um 50 milljónir í fyrsta áfanga viðbyggingar grunninnviða á Jökulsárlóni með uppbyggingu bílastæðis, aðkomuvegar, heimtaugar ásamt spennivirki, vatnsveitu og ljósleiðaratengingu. Ég veit ekki hver þessi fyrsti áfangi er nákvæmlega en hann er ekki allt þetta.
Á bls. 10 er talað um verkefnið Ísland ljóstengt, aukið átak. Vissulega þarf að plægja strengi og tengja, eitthvað verður til þarna, en ég hefði viljað sjá rafstrengina líka, þ.e. að bæta raforkuöryggið í landinu. Síðan er fjárfesting vegna stjórnunar og samhæfingar innviða, margháttaðar aðgerðir til að stýra betur og samhæfa grunninnviði landsins. Ég skil bara ekki að þetta skapi einhver sérstök störf.
Á bls. 11 segir, með leyfi forseta:
„Efla Rannsóknasjóð og Innviðasjóð með það að markmiði að tryggja alþjóðlegt samkeppnishæfi á vísindastarfi og rannsóknaumhverfi með bættri fjármögnun.“
Ég átta mig ekki á því hvaða störf eru þarna. Þetta er örugglega mikilvægt til framtíðar en ég get ekki séð að þetta hjálpi okkur með störf í þessum mánuði eða í ágúst.
Síðan er talað um framlög til fjárfestinga í innlendri garðyrkju. Það er mjög gott að hvetja til innlendrar garðyrkju en hvers vegna er ekki farið í að lækka orkuverð til garðyrkjunnar? Það myndi ekki síður skipta máli en þessi liður.
Síðan á að setja peninga í skráningu menningarminja sem er örugglega mikilvægt og gott. Talað er um Stafrænt Ísland og það allt saman og þar er lagt í alls konar vinnu og fjárfestingar, ágætt að stytta eigi ferla fyrir íbúa landsins, en síðan er hér nokkuð sem kallast þingmannagátt:
„Þingmannagátt er hluti af þróun stafrænnar þjónustu fyrir kjörna fulltrúa þjóðarinnar þar sem öll gögn sem tengjast þingstörfum þeirra eru á einum stað.“
Þar eru 65 milljónir. Vonandi fá einhverjir forritarar störf við þetta en ég er mjög hugsi yfir þeim tillögum sem hafa komið fram. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst bullandi kosningalykt af þessu. Ég held að ríkisstjórnin sé að undirbúa að setja fram mál sem hún getur nýtt sér, ekki í bráð heldur næsta haust og næsta vetur þegar líður að kosningum. Mér finnst ekki gott ef svo er.
Það sem þarf að gera strax er að setja peninga í framkvæmdir sem kalla á mannafl. Það þarf að byggja húsnæði. Það þarf að fara í mislæg gatnamót og þess háttar og síðan þarf vitanlega að tala við ferðaþjónustuna, sem hefur orðið fyrir mestum skaða, um hvað skipti hana mestu máli. Við þurfum að vera tilbúin þegar landið opnast aftur. Mér finnst því miður þær tillögur sem hér eru uppi ekki vera mjög fókuseraðar á akkúrat ástandið í dag. Þetta er meira og minna einhver óskalisti frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar.“