„Samt er það lagaleg skylda stjórnvalda að leggja fram kostnaðaráætlun og ábatagreiningu varðandi alla notkun á opinberu fé. Segjast stjórnvöld ætla að gera það? Já. Gera þau það? Nei.“
Það er Björn Leví Gunnarsson sem bæði spyr og svarar. Greinilega fullur efasemda um að orð fylgi athöfnum.
Þetta er úr Moggagrein í dag. Hann fjallar þar um verkefnalista ríkisstjórnarinnar. Sem hann gefur ekki mikið fyrir. Verkefnin eða ríkisstjórnina? Bæði.
Björn Leví spyr: „Hver fær pening og af hverju? Hvað er arðbær fjárfesting og þýðir sú staðhæfing eitthvað miðað við að við fáum aldrei að vita hver væntur arður er af fjárfestingum? Miðað við mína reynslu þá hringir þetta öllum aðvörunarbjöllum vegna þess að þó að þetta líti vel út á blaði þá er „arðbær fjárfesting“ innantóm orð. Síðasta kostnaðar- og ábatagreinda verkefnið sem ég sá á vegum stjórnvalda var borgarlínan árið 2018.“
Síðan kemur upprifjun sem sér til þess að við fáum kalt vatn milli skinns og hörunds:
„Það er verið að taka 95 milljarða lán í ýmis verkefni sem giskað er á að muni skila ábata og redda okkur úr lægðinni. Það er fullyrt að um arðbærar fjárfestingar verði að ræða en á sama tíma er augljós og viðurkennd áhætta upp á 35 milljarða króna. Kaldhæðnisleg upphæð í sögulegu samhengi en einhverjir muna kannski að tap skattgreiðenda vegna neyðarláns til Kaupþings var einmitt 35 milljarðar. Það ætti að gefa okkur hugmynd um hver ábyrgðarlega stærðargráðan er.“