„Það kann að vera, t.d. núna upp á síðkastið, að þetta sé að hluta til vegna þess sem ég sagði áðan, af því að ríkisstjórnin hefur heykst á því að breyta 100.000 kr. sem svokölluðu frítekjumarki sem ég vil leyfa mér að halda fram, herra forseti, að sé algjört bull. Ef tillaga okkar Miðflokksmanna hefði verið afgreidd, þ.e. að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur, þá tapar enginn á því, herra forseti, ekki nokkur maður, ekki ríkið heldur, vegna þess að af þessum tekjum myndi fólk að sjálfsögðu greiða skatt,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki þegar þingið fjallaði um þingsályktunartillögu Bjarkeyjar Olsen Gunnardóttir, þingflokksformanns VG, um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Þorsteinn hefur lagt ámóta til. „Mér er ekki örgrannt um, þó að ég hafi svo sem ekkert alveg naglfast í hendi og þetta á náttúrlega ekki við um ríkið, að með því að mönnum er gert að geta ekki haft meiri tekjur en 100.000 kr. án þess að verða fyrir skerðingum sé verið að neyða eldri borgara þessa lands út í skattsvik á efri árum. Sé sú hugdetta mín rétt, þetta er eiginlega meira en ágiskuð ályktun heldur er þetta eitthvað sem maður hefur heyrt og séð og orðið var við, er það meira en kaldhæðnislegt að neyða fólk sem er búið að skila góðu starfi í þjóðfélaginu alla sína tíð og er á lokametrunum á vinnumarkaðnum út í skattsvik, mjög ömurlegt.
Ég hefði talið að eins ágætt og þetta mál er og meinlaust að það væri betra ef það hefði verið skarpari. Ég hefði talið betra, ef það á að gilda um 70 ár plús, án hámarks, að eitthvað meira hefði verið um það. En þess utan finnst mér náttúrlega kauðskt að Alþingi álykti að ráðherra semji lög. Það er Alþingis að semja lög, herra forseti. Það er starfið okkar hér, viðfangsefni okkar er að semja lög og við þurfum ekkert að skora á einhverja ráðherra að semja lög, við gerum það bara sjálf ef við ætlum að gera það. Þess vegna skil ég ekki þessa krókaleið.“