„Hættu þessu helv… tuði um að þetta sé „skrýtið ástand“.
Jón Örn Marinósson skrifar.
Þriðji dagur í samkomubanni hefur reynst mér ódrjúgur til verka ef undan er skilin sú fyrirhöfn að koma sér á fætur, hella uppá, taka til sín fæðu og losa sig við „dittó“ án lífsnauðsynlegra næringarefna. Klukkan 17:43 hafði ég sagt við sjálfan mig tuttugu og sjö sinnum frá því um hádegisbil: „Þetta er skrýtið ástand!“ Þá var mér nóg boðið og ég sagði við sjálfan mig: „Hættu þessu helv… tuði um að þetta sé „skrýtið ástand“. Þetta er „skrýtið ástand“ og það heldur áfram að vera „skrýtið ástand“ og það breytir engu þó að þú tönnlist á því aftur og aftur að þetta skrýtna ástand sé „skrýtið ástand“. Skilurðu það! Og hættu þessu.“ Og ég hef ekki látið það eftir mér síðan að segja nokkurn skapaðan hlut um ástandið… enn sem komið er.