- Advertisement -

Erum við; „öll í þessu saman“

Hvernig ætlum við að sýna þessu barni að „við séum öll í þessu saman“?

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Þau sem fara með völd í þessu samfélagi hafa nú einstakt tækifæri. Til að sýna hvaða skilning þau leggja í orðin „Við erum öll í þessu saman.“ Til að sýna að þau skilji að allt fólk skiptir máli.

Hugsum okkur barn. Það tilheyrir fjölskyldu þar sem báðir foreldrar eru í láglaunastörfum. Lágar ráðstöfunartekjur hafa gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að leggja fyrir, þvert á móti hefur fjölskyldan þurft að taka lán til að mæta hversdagslegum útgjöldum. Fjölskyldan býr í leiguhúsnæði. Um helmingur ráðstöfunartekna heimilisins fer í að greiða leiguna.

Hvað býður þeirra?

Annað foreldrið missir vinnuna. Atvinnuleysisbætur eru mjög lágar. Hvað verður um þessa fjölskyldu? Hvaða áhrif hefur það á barn að sjá foreldra sína takast á við stórkostlega erfiðar efnahagslegar aðstæður, til viðbótar við það uppnám sem faraldurinn veldur í samfélaginu? Hvernig ætlum við að sýna þessu barni að „við séum öll í þessu saman“?

Láglauna og verkafólk er dagsdaglega að takast á við erfið og flókin vandamál. Félagsfólk Eflingar af erlendum uppruna verða mörg fórnarlömb stórfellds launaþjófnaðar, félagið innheimtir hundruð milljóna á ári hverju fyrir þeirra hönd. Félagsfólk Eflingar er sumt upp á atvinnurekendur komið með aðgang að húsnæði. Hvað verður um það fólk ef það missir vinnuna vegna mikils efnahagslegs samdráttar? Hvað býður þeirra?

Við búum í samfélagi þar sem að stéttaskipting er mjög raunveruleg. Hún gerir það að verkum að sumar fjölskyldur eiga sparifé og búa í eigin húsnæði, á meðan aðrar fjölskyldur eiga ekki neitt, ekki einu sinni eigið húsnæði.

Fyrir fólk sem á ekkert nema vinnuaflið sitt til að lifa af verður að grípa til sérstakra aðgerða þegar mikið atvinnuleysi blasir við. Þegar fólk sem ekki er eigendur atvinnutækja eða fjármagns getur ekki lengur aflað tekna með því að ráða sig i vinnu verður að mæta því með lausnum sem senda skýr skilaboð um að það og fjölskyldur þeirra séu mikils virði, skýr skilaboð um að þau verði ekki látin bera hræðilegan fórnarkostnað. Þannig getum við sýnt og sannað að við séum öll í þessu saman.

Við getum sýnt hugrekki.

Strax er hægt að grípa til ráðstafana sem draga úr líkunum á því að sumar fjölskyldur og sum heimili þurfi að upplifa óbærilega erfiðar efnahagslegar hremmingar. Hækka þarf hlutfall tekjutengingar atvinnuleysisbóta úr 70% í 100%. Lengja þarf tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr 3 mánuðum í 6 mánuði, með möguleika á frekari framlengingu í ljósi aðstæðna. Hækka þarf þak á tekjutengdar atvinnuleysisbætur og tekjutengdar atvinnuleysisbætur eiga að greiðast frá fyrsta degi bótatímabils.

Og tryggja verður að engin manneskja missi húsnæði vegna kreppunnar og tekju/atvinnumissis.

Á tímum sem þessum kemur eins skýrt fram og hægt er að hugsa sér hvaða hugmyndir við höfum um mannlegt samfélag, hvaða gildum við viljum lifa eftir.

Við getum sýnt hugrekki. Við getum krafist þess af okkur sjálfum og þeim sem fara með völd að gildi eins og mannúð, mildi, samhygð og samstaða ráði alfarið för. Um leið og við hlustum á sérfræðinga í heilbrigðismálum og förum eftir ráðleggingum þeirra setjum við fram kröfuna um að efnahagslegri heilsu fólks verði ekki fórnað, að vellauðugt og fámennt samfélag tryggi öllum mannsæmandi líf og góða afkomu.

Við eigum þetta samfélag saman.

Við höfum tækifæri. Til að virkja raunverulegt lýðræði í samfélaginu. Til að hafna þeirri fyrir fram ákveðnu niðurstöðu að verka og láglaunafólk skuli bera þyngstu byrðarnar, enn eina ferðina. Verka og láglaunafólk, vinnuaflið, verður að fá lögmæta og lýðræðislega áheyrn. Stjórnvöld verða að leita eftir fullu samstarfi við fulltrúa verkafólks í allri ákvarðanatöku.

Mildi, mannúð, samstaða, samhygð, samhjálp. Þessar hugmyndir, byggðar á okkar sam-mannlegu tilfinningum eru þær sem mestu máli skipta í mannlegum samskiptum. Þetta vitum við öll. Það er ekki hægt að græða peninga á þessum hugmyndum, þessum tilfinningum, en án þeirra er tilvera okkar lítils virði.

Við getum öll orðið veik og við eigum öll aðeins eitt líf. En við erum öll jafn mikils virði. Það getur enginn neitað því. Við hljótum að sameinast um að engin verði skilin eftir. Við eigum þetta samfélag saman. Ef viljinn er fyrir hendi getum við tryggt að engin þurfi að þjást að óþörfu.

Greinina birti Sólveig Anna á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: