Þekkt er að þáverandi valdamaður hringdi í nýjan bankastjóra ríkisbanka og sagði þetta eitt: „Þú fórst út af í fyrstu beygju.“
Þetta rifjast upp þegar Staksteinar dagsins eru lesnir. Samkvæmt því sem áður var sagt fór Stefán Eiríksson útvarpsstjóri ríkisins út af í fyrstu beygju. Hann vill auka veg Ríkisútvarpsins í stað þess að draga seglin saman.
„Það var svo sem ekki við því að búast að nýr útvarpsstjóri kæmi með hugmyndir um að draga úr starfsemi Ríkisútvarpsins, en að hann ætli sé að færa kvíarnar enn frekar út er langt gengið. Hann notaði tækifærið á blaðamannafundi almannavarna á laugardag til að kynna áform um „gullsjónvarpsstöð“ þar sem sent yrði út gamalt efni,“ segir Davíð Oddsson í Staksteinum.
Davíð rifjar upp: „Ríkisútvarpið rekur nú þegar tvær sjónvarpsstöðvar, þrjár útvarpsstöðvar og einn vef svo augljóst má vera að engin ástæða er til að bæta við enn einni stöð ríkisins í samkeppni við einkastöðvar.“
Af milli þekkingu á hinum raunverulegu stjórnmálum skrifar hann:
„Ríkið segist vilja styðja við einkarekna miðla til að hér á landi verði ekki bara risastór ríkisfjölmiðill og svo nokkrir veikburða einkareknir miðlar, en fátt í framkvæmdinni bendir til að viljinn sé í raun til staðar.
Nú eru sagðar fréttir af því í Bretlandi að þar eigi að fara með virðisaukaskatt af netáskriftum dagblaða niður í 0% líkt og skatturinn er af pappírsáskriftunum, auk þess að leggja nýjan skatt á risa á borð við Google og Facebook. Þá á að framlengja lækkaða fasteignaskatta fyrir smærri blaðaútgefendur, sem eru auðvitað stórir á íslenskan mælikvarða.
Ætla íslensk stjórnvöld á sama tíma að halda uppi sköttum á einkarekna miðla og leyfa enn frekari útþenslu Ríkisútvarpsins á þeirra kostnað?“