Þá er fyrsti dagur útgöngubannsins að líða. Ekkert hefur reynt á þolinmæði eða annað sem á eflaust eftir að gera vart við sig. Okkur skortir ekkert og erum við fínustu heilsu.
Auðvitað er sérstakt að vera þátttakandi í heimsfaraldri. Vegna þess hversu þetta er allt svo risavaxið er ekkert annað en að gera en taka þessu með ró. Er sem er og verður sem verður.
Næstu tvær vikur megum við ekki vera bæði á ferð samtímis. Ekki í bílnum og ekki gangandi. Aðeins annað má til að mynda fara til að kaupa inn. Það er ekki flókið.
Við sjáum enga ástæðu til að vantreysta heilbrigðiskerfinu hér á Spáni. Allir þeir Íslendingar, sem við vitum um, sem hafa þurft að leita sér læknishjálpar hafa verið himinlifandi með þjónustuna.
Hér er nóg við að vera. Það þar að skrifa á Miðjuna, prjóna, hlusta, horfa og tala saman. Um miðjan daginn eru svalirnar hjá okkur baðaðar sól. Hvorugt hefur áhuga á sólböðun. Eigi að síður er fínt að sitja úti. Fátt ber fyrir augu. Engir á ferli.
Dagur eitt er sem sagt að renna sitt skeið. Hann var bara ágætur.