- Advertisement -

Aldrei áður svo margir fengið sérkennslu

Sífellt fleiri grunnskólanemendur læra erlend tungumál. Skólaárið 2013-2014 lærðu 80,8% grunnskólanema erlent tungumál og hafa ekki verið fleiri síðan gagnasöfnun hófst skólaárið 1999-2000. Færri læra þrjú tungumál og spænska er tekin við af þýskunni sem vinsælasta valtungumálið í unglingadeild. Tæpur þriðjungur allra grunnskólanemenda nýtur stuðnings, meirihlutinn drengir. Hlutfallið hefur aldrei áður verið svo hátt.

Á heimasíðu Hagstofu Íslands kemur fram að enska er það tungumál sem flestir nemendur læra. Skólaárið 2013-2014 lærðu 34.579 börn ensku í grunnskólum, eða tæp 81% nemenda, sem er fjölgun um 0,9 prósentustig frá fyrra skólaári. Kennsla í ensku hefst oftast í 4. bekk en þó er enska kennd í 1.-3. bekk í fjölmörgum skólum. Síðastliðið skólaár lærðu 5.619 börn í 1.-3. bekk ensku, eða rúmlega fjögur af hverjum tíu (42,5%) börnum í þessum bekkjum, samanborið við 211 börn (1,6% nemenda) fyrir áratug.

Grunnskólanemendum sem læra þrjú tungumál hefur farið fækkandi frá skólaárinu 2001-2002 þegar þeir voru flestir, 1.656. talsins. Á síðastliðnu skólaári lærðu 728 grunnskólanemendur þrjú tungumál eða fleiri. Þriðja tungumál er yfirleitt kennt sem valgrein í íslenskum grunnskólum og þá helst á unglingastigi. Þýska var algengasta þriðja erlenda tungumálið á unglingastigi til skólaársins 2006-2007 en hefur síðan vikið fyrir spænsku. Á síðasta skólaári lærðu 374 unglingar spænsku, 198 frönsku og 125 þýsku.

Skólaárið 2013-2014 fengu 12.203 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðning, eða 28,6% allra nemenda. Það er fjölgun um 764 nemendur frá fyrra skólaári eða 6,7%. Þetta er hæsta hlutfall nemenda í sérkennslu frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands um sérkennslu skólaárið 2004-2005. Af þeim nemendum sem fengu stuðning voru 62,1% drengir og 37,9% stúlkur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nemendur sem þurftu aðstoð vegna íslenskunáms, þar sem þeir höfðu annað móðurmál en íslensku, voru 2.123 talsins, fleiri í yngri bekkjum grunnskólans. Nemendur sem fá stuðning vegna íslenskunáms hafa ekki verið fleiri frá því að Hagstofan hóf gagnasöfnun skólaárið 2010-2011, en þá voru þeir 1.442.

Skólaárið 2013-2014 var 46.255 kennslustundum á viku varið til sérkennslu og stuðnings í grunnskólum landsins og hafa ekki verið fleiri síðan Hagstofan hóf að safna þessum upplýsingum fyrir skólaárið 2004-2005. Þar af voru 18.293 kennslustundir sérkennara (39,5%) og 27.962 kennslustundir stuðningsfulltrúa (60,5%). Hlutfall kennslu sérkennara hefur farið lækkandi undanfarin ár, en það var hæst skólaárið 2004-2005, eða 43,6%.

Skólaárið 2013-2014 fengu nemendur í 1.-10. bekk samanlagt 340,2 kennslustundir og hefur vikulegum kennslustundum fækkað um 0,3 að meðaltali frá skólaárinu 2012-2013. Að meðaltali náðu allir árgangar viðmiðum laga um lágmarkstundafjölda á viku.

Í lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skulu ekki vera færri en 180 á hverju skólaári. Skóladagar skiptast í kennsludaga, prófdaga og aðra daga. Með öðrum dögum er átt við þá daga þar sem skólastarf samkvæmt stundaskrá undir stjórn kennara fer ekki fram, t.d. þegar farið er í skólaferðalög og vettvangsferðir.

Meðalfjöldi skóladaga 2013-2014 allra bekkja var 178,2 og er það fækkun um 0,8 daga frá meðaltali síðasta árs. Helsta skýring á fækkuninni er einn verkfallsdagur grunnskólakennara í maí 2014.

Sjá vef Hagstofunnar.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: