Harkan sex frá hálaunafólkinu í Ráðhúsinu.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Það er greinilega ekki erfitt að semja við Eflingu þegar innihald samningsins er ásættanlegt fyrir félagsmenn. Þessi stífni hjá Reykjavíkurborg gagnvart Eflingu er til skammar. Samfylkingunni til skammar, Pírötum til skammar, Vinstri grænum til skammar en þar sem Viðreisn er svo hægri sinnuð þá býst maður ekki við öðru af þeim flokki. En fyrst og fremst er þetta Degi B. Eggertssyni borgarstjóra til skammar.
Dagur mun ekki fá góða umsögn í sögubókunum. Hans verður minnst sem borgarstjórans sem vildi ekki borga láglaunakonunum mannsæmandi laun. Konunum á allra lægstu launum sem auk þess er þrælað út hjá borginni og látnar fara í störf faglærðra á lága kaupinu sínu. Á kaupinu sem þær geta ekki lifað á. Dagur B. hefur engan skilning á því að þessar konur eigi skilið að fá örlítið meira en það sem lífskjarasamningurinn segir til um. Hann þrælar þeim út. Oft með slæmum afleiðingum, veikindum svo ekki sé talað um börnin sem alin eru upp í fátækt. Það er ótrúlegt að þetta fólk sem stýrir borginni sýni engan skilning, heldur bara hörku. Harkan sex frá hálaunafólkinu í Ráðhúsinu.