Auk þess sem húsnæðiskostnaður var ekki með.
Marinó G. Njálsson skrifar:
„Working poor“ eða „vinnandi fátækir“ er hugtak yfir fólk í fullu starfi sem ekki getur framfært sér og sínum af þeim launum sem fullt starf gefur. Fólk þarf helst að vera í fleiri en einu starfi.
Haustið 2010 sat ég í sk.. sérfræðingahópi um skuldamál heimilanna. Í þeirri vinnu fengum við aðgang að ótrúlegu magni upplýsinga um fjárhagsstöðu heimilanna. Það sem sló mig mest, var hve margir áttu ekki fyrir almennum neysluútgjöldum alveg burt séð frá skuldastöðu. Þetta var á þeim tíma, þegar leiga var enn tiltölulega lág. Ef við notuð skiptinguna í meðfylgjandi töflum og hækkum húsnæðiskostnaðinn um 80-100 þúsund á mánuði, þá mun fjölga verulega í hópi þeirra verst settu. Mjög margir af þessum voru „vinnandi fátækir“.
Ég skrifaði um það fyrir nokkrum vikum að lífeyrisgreiðslur til öryrkja eru ekki beint að hrópa húrra fyrir. Raunar er eins og búið sé að reikna út, að öryrkjar eigi fá þremur krónum meira í ráðstöfunartekjur en útreiknuð fátæktarmörk eru. Þau mörk eru hins vegar gjörsamlega óraunhæf vegna hinnar háu húsaleigu, sem fólk þarf að greiða.
„Vinnandi fátækir“ eru ótrúlega margir og meðan vantar raunveruleg húsnæðisúrræði fyrir þennan hóp, þá mun lítið breytast. Meðan launagreiðendur skilja ekki, að það er lítillækkandi fyrir þá, að greiða starfsfólki sínu ekki mannsæmandi, þá mun lítið breytast. Meðan stjórnvöld skilja ekki, að öryrkjar er margir hverjir dæmdir til að lifa í fátækt alla sína ævi, þá mun lítið breytast.
Hvet alla til að horfa á umfjöllun Láru Ómarsdóttur í Kveik um fátækt – https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kveikur/29047/8l0e3l – það er hollt fyrir alla. Líka þessa sem eiga ekki aura sinna tal.
Til að skýra út viðmiðunarmörk umboðsmanns skuldara sem nota er í töflunum fyrir neðan, þá voru í þeim eingöngu naumhyggju neysluútgjöld sem ætlast var til að fólk gæti lifað við í 3-6 mánuði. Þarna vantaði alls konar almenn útgjöld, svo sem símakostnað, sjálfsagðar áskriftir að fjölmiðlum, útgjöld vegna ungra barna, tryggingar og margt fleira. Auk þess sem húsnæðiskostnaður var ekki með.
Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.