- Advertisement -

Djúp óánægja kraumar í samfélaginu

Guðmundur Andri Thorsson skrifaði greinina í nýjasta tölublað Kópavogsblaðsins:

„Ísland er ekki best í heimi í neinu, svo ég viti. En það er heldur ekki verst í heimi, eins og sumir tala stundum. Hér getur verið gott að vera, komist maður klakklaust gegnum þær hindranir sem fylgja lífshlaupinu. Sumar þeirra eru reyndar óþarfar og ranglátar.

Við þekkjum hlutskipti þess aldraða fólks sem býr við fátækt og einsemd og alltof miklar skerðingar á lífeyri sínum. Við þekkjum þær skerðingar sem öryrkjar mega sæta. Við þekkjum láglaunastefnuna sem lýsir sér í sífelldu vanmati á framlagi umönnunarstéttanna sem langmest eru skipaðar konum.

Og við þekkjum það hvernig lífið getur verið óþarflega flókið og erfitt hjá ungu fólki, og sérstaklega ungum barnafjölskyldum, jafnvel þótt fyrirvinnurnar hafi góðar tekjur og séu við góða heilsu. Það er of dýrt hér á landi að sinna grunnþörfum fjölskyldunnar: að eiga heimili og að komast milli staða með góðu móti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þá væri Ísland ekki sem verst.

Og við þekkjum það hvernig sífellt er verið að bregðast við neyðarástandi einhvers staðar í kerfinu vegna vanrækslu innviða. Þetta er ríkt samfélag en stundum er eins og allt sé rekið hér á heljarþröm. Ekki til peningar fyrir aðkallandi vegaframkvæmdum, launum til að fá hjúkrunarfræðinga til vinnu, aðgerðum til að draga úr skerðingum lífeyris …

Í samfélaginu kraumar djúp óánægja, nagandi tilfinning um ranglæti og misskiptingu. Verkföll skella á og þar er borin upp sú einfalda krafa að fólk fái laun sem dugi fyrir lífsnauðsynjum og endist út mánuðinn.

Við sjáum grunnstofnunum samfélagsins einfaldlega ekki fyrir þeim tekjum sem þær þurfa. Hinir ofsaríku komast upp með að fela auð sinn aflendis í skattaskjólum – útgerðin borgar alltof lág gjöld fyrir aðgang að auðlindinni sem skilar svimandi arði. Og um leið eru jöfnunartækin – barnabætur og húsnæðisbætur – ekki nýtt markvisst heldur er litið á þessi úrræði sem fátækrastyrk.

Væru sjónarmið jafnaðarstefnunnar höfð að leiðarljósi við landstjórnina, með réttlátari skattastefnu og markvissum aðgerðum til að jafna lífskjörin – þá væri Ísland kannski ekki orðið best í heimi í neinu – og þarf heldur ekkert að vera það – en það væri auðveldara og skemmtilegra að búa hér.  Þá væri Ísland ekki sem verst.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: