- Advertisement -

Stjórnmálamenn styðja eiturlyfjaiðnað

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Bindindisamtökin eru ekki sátt með frumvarp hennar um tilslakanir í sölu áfengis.

„Nokkrir stjórnmálamenn hafa stutt þennan eiturlyfjaiðnað og talað fjálglega um frelsi,“ segir í umsögn Bindindissamtakanna IOGT, við frumvarp um breytingar á lögum um áfengi.

„Áfengisiðnaðurinn hefur þrýst mjög og lengi á að brjóta niður áfengisforvarnir á Íslandi en ein af meginstoðum þeirra er ÁTVR, einkasala ríkisins. Nokkrir stjórnmálamenn hafa stutt þennan eiturlyfjaiðnað og talað fjálglega um frelsi. Það er „viðskiptafrelsi“ til að fanga sem flesta í þrælahald Bakkusar og græða sem mest á því,“ segir einnig í umsögninni.

„Almenningur hefur staðið fast á móti þessu og í skoðanakönnunum hefur 70 % landsmanna viljað halda í ÁTVR. Samt berjast þessir stjórnmálamenn gegn lýðheilsu þjóðarinnar. Nú á að reyna að taka þetta í pörtum. Vefverslun með áfengi – ef hún á að vera áfram leyfileg þá er best að hún fari öll fram í gegnum ÁTVR – bæði innlend og erlend. Áfengi er engin venjuleg neysluvara og öll áfengisneysla er skaðleg og áfengi sem selt er á netinu er líka skaðlegt og óþarfi að liðka fyrir þeim skaða. IOGT minnir á að 300 þúsund manns deyja af áfengistengdum orsökum í Evrópu á hverju ári og meira en 3 milljónir manna í heiminum öllum. Það er fyrir utan allan annan skaða sem áfengisneysla veldur,“ segja Bindindissamtökin.

„Samfélagslegur kostnaður vegna áfengisneyslu á Íslandi hefur verið reiknaður út í meistararitgerð Ara Matthíassonar 2010 en þar skiptir hann kostnaði í beinan og óbeinan kostnað og er útkoman 50 – 80 milljarðar á ári. Reiknað upp til ársins 2018 eru efri mörkin nú yfir 100 milljarðar. Þessi upphæð eykst um 30 milljarða á ári ef frumvarp verður samþykkt,“ segir einnig i umsögninni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: