- Advertisement -

Mikil þörf á félagslegu húsnæði

Mikil þörf er á uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Umsóknum fer fjölgandi og biðlistar eru langir. Mikill meirihluti þeirra sem bíður eftir húsnæði, eða um 80%, býr á Höfuðborgarsvæðinu. Lítið verður þó um framkvæmdir á þessu sviði á næstunni.

Á heimasíðu ASÍ eru birtar niðurstöður í nýrri könnun Varasjóðs húsnæðismála á stöðu leiguíbúða sveitarfélaga á landinu. Í þeim kemur fram að mikil þörf er á verulegu átaki í uppbyggingu félagslegs húsnæðis.

Félagslegar leiguíbúðir eru ríflega 4.900 á landinu öllu, þar af eru ríflega 2.200 í Reykjavík og ríflega 700 til viðbótar í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögum á landinu bárust ríflega 2.100 umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði á árinu 2013 en í lok þess árs voru um 1.700 manns á biðlista eftir íbúð. Flestar umsóknir berast Reykjavíkurborg, 1.165, en þar voru um 840 manns á biðlista. Hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu bárust samtals 320 umsóknir árið 2013 og 550 manns voru á biðlista í lok þess árs. Algengast er að biðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði sé eitt á eða lengur.

Þrátt fyrir verulegan vanda fjölgar félagslegum leiguíbúðum lítið, íbúðum fjölgaði í heildina um 60 á milli áranna 2012 og 2013 sem jafngildir 1,2% fjölgun. Aðeins örfá sveitarfélög standa í raun undir þessari fjölgun og má nefna að í Reykjavík fjölgaði íbúðum t.d um 10. Segir á vefnum að það veki athygli, í ljósi erfiðrar stöðu í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu, að á Seltjarnarnesi fækki félagslegum leiguíbúðum um 19 milli ára.

Fá sveitarfélög áforma að fjölga félagslegum leiguíbúðum á næstunni. Reykjavíkurborg stendur nánast undir allri áformaðir fjölgun en þar stendur til að fjölga íbúðum um 270. Í Kópavogi eru áform um að fjölga íbúðum um 10 en Hafnarfjörður og Mosfellsbær sem einnig segjast áforma fjölgun tilgreina ekki fjölda íbúða.

Sjá nánar á vef ASÍ:

Hugmyndir ASÍ um nýtt félagslegt húsnæðiskerfi

Ályktun 41. þings ASÍ um húsnæðismál


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: