Báðir þessir menn eru í stjórnarmeirihluta og báðir eru kosnir til að taka ákvarðanir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifaði:
Sigurður Ingi mætti víst á fund Framsóknarmanna í Reykjanesbæ í gær. Þar var hann inntur eftir svari hvort ekki væri hægt að flýta langþráðri og nauðsynlegri tvöföldun Reykjanesbrautar. Í svari hans varpaði hann boltanum á umhverfis- og samgöngunefnd þingsins og að hún eigi eftir að skila áætlun inn í þingið. Hann ætli sér samt sem áður að tala máli brautarinnar og að hún verði samþykkt í 1. kafla samgönguáætlunarinnar sem jafnframt er verkáætlun Vegagerðarinnar. Gott og vel.
Frá þessu er sagt í Facebook hópnum Stopp hingað og ekki lengra! sem hefur barist ötullega fyrr tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Jón Gunnarsson, fyrsti varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar og skuggasamgöngumálaráðherra setur þar inn færslu þar sem hann vænir Sigurð Inga um að stunda „vinsældar pólitík“. Jón bendir á að Sigurður Ingi hafi vissulega lýst þessari skoðun sinni í fjölmiðlum og á opnum fundum sem þessum en hvorki nefnt það sérstaklega við nefndina né hvaða framkvæmdir eigi þá að flytjast á önnur framkvæmdatímabil. Þarna kristallast vandi ríkisstjórnarinnar. Og okkar allra sem bíðum eftir samgönguframkvæmdum. Við erum með samgönguráðherra sem segir eitt og síðan stjórnarþingmann sem segir annað, af því hann vildi svo gjarnan vera samgönguráðherra.
Báðir þessir menn eru í stjórnarmeirihluta og báðir eru kosnir til að taka ákvarðanir. Mikilvægar ákvarðanir eins og hvort flýta eigi tvöföldun Reykjanesbrautarinnar en ekki bíða með hana til 2025-2029. En meðan samgöngumálaráðherra og skuggamálaráðherra hans gera lítið annað en að metast hvor þeirra er betri samgönguráðherra, hvaða leið eigi að fara í samgöngumálum, veggjöld eða ekki – mun ekkert gerast í brýnum vegaframkvæmdum.
Þessi sandkassaleikur er þreytandi og skilar engu öðru en töfum á töfum ofan. Því miður.