Glætan að sú orka sem mögulega losnar í Straumsvík, geti staðið undir hundruð milljarða fjárfestingu í sæstreng.
Marinó G. Njálsson skrifaði:
Ráðherra orkumála virðist bara sjá tvo kosti í núverandi stöðu vegna rekstrarvanda álversins í Straumsvík. Annað hvort fái ríkisstjórnin leyfi til að veita fyrirtækinu ríkisstyrk eða stjórnvöld „neyðast“ til að heimila sæstreng! (Orðaði það að vísu að kanna möguleikann á útflutningi raforku um sæstreng.)
Ég sé að andstæðingar OP3 rísa núna upp og segja: „Einmitt það sem við vöruðum við!“
Málið er, að ráðherra er að reyna að vinna ríkisstyrk til álversins brautargengi.
Glætan að sú orka sem væri að mögulega að losna í Straumsvík, gæti staðið undir hundruð milljarða fjárfestingu í sæstreng. Landsvirkjun gaf það út í síðustu viku, að tekjutap fyrirtækisins gæti orðið í kringum 2,5 ma.kr. á ári, yrði af því að Ísal nýtti ekki alla þá umframorku sem fyrirtækið er með samninga um að nýta. Takið eftir: 2,5 ma.kr. Til að koma í veg fyrir tekjutap upp á 2,5 ma.kr., þá ætlar ráðherra orkumála að leggja sæstreng sem kostar 150-300 ma.kr. eða allt að 120 faldar tapaðar tekjur. Að leggja sæstrenginn tæki líklega áratug, ef ekki meira, Alþingi þarf að venda sínu kvæði í kross og samþykkja sæstreng sem það var á móti fyrir bara nokkrum mánuðum, reisa þyrfti nýjar virkjanir til að fylla upp í flutningsgetu sæstrengsins, endurnýja þyrfti, endurbæta og auka við flutningskerfi raforku í landinu sem ekki hefur verið hægt að gera í nokkra áratugi og svo þyrfti líklegast að greiða með rafmagninu til að geta selt það í Evrópu, því þegar allt þetta væri nú loksins tilbúið, þá stæði mun ódýrari raforka örugglega til boða, enda mun tæknin til raforkuframleiðslu ekki standa í stað meðan við reynum að bjarga 2,5 ma.kr. tekjumissi Landsvirkjunar með framkvæmdum upp á 450 ma.kr. sem tæki 15 ár að ljúka.
Svona ofurkostir eru kjánaleg, gamaldags pólitík.
Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.