Meirihlutinn í Reykjavík hefur synjað að breyta megi hluta hússins að Tryggvagötu 13 í hótelíbúðir. Einungis fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu heimila breytingarnar.
„Mikilvægt er að auka sveigjanleika íbúana varðandi atvinnustarfsemi og notkun húsnæðis í borginni,“ segir i bókun þeirra.
Sanna Magdalena Sósíalistaflokki bókaði:
„Það að fjármagnseigendur byggi óþarfar, allt of dýrar, lúxus íbúðir sem ekki seljast er ekki vandamál borgarinnar. Það væri óviðeigandi og óþolandi að fjármagnseigendur þyrftu enn og aftur ekki að taka afleiðingum ákvarðana sinna.“
Vigdís Hauksdóttir Miðflokki tók fastar til orða:
„Þrengingarstefna meirihlutans er gjaldþrota. Neyðarástand ríkir í miðbænum. Uppbyggingaáform ódýrra íbúða á svæðinu hafa mistekist. Ekki er eftirspurn eftir þeim íbúðum sem búið er að byggja enda var vitað að fermetraverð yrði hátt. Langtum dýrara er að byggja á þrengingarreitum en í nýbyggingarhverfum. Bjartsýniskastið sem greip meirihlutann virðist vera á enda. Mikil harka ríkir hjá borginni að gefa ekki undanþágur frá skilmálum deiliskipulags um hlutfall skrifstofurýma, íbúða- eða verslunarhúsnæðis og hótel/gistirýma. Í erindi þessu eru færð fram mjög sterk rök fyrir því að nauðsynlegt sé fyrir eigendur að fá nýtingu á hið nýbyggða fjölbýlishús í formi leigutekna í stað þess að láta húsnæðið standa tómt. Einungis er hér um tímabundna ráðstöfun að ræða. Í annað sinn er þessari beiðni hafnað og er það í engum takti við áform um lifandi miðbæ. Ófrávíkjanlegar reglur og ósveigjanlegt kerfi er að kæfa alla starfsemi í borginni þegar einkaframtakið sýnir frumkvæði að einföldum lausnum til sjálfsbjargar.“