Kapítalisminn drepur og rústar
Gunnar Smári skrifar:
Það má fagna því að fólkið sem myndar akademíuna í Ameríku kaus mynd sem gerist innan kapítalismans eins og hann er, ekki eins og haldið er að okkur að hann sé, til sigurs í mikilvægustu flokkunum; besta myndin, besta alþjóðlega myndin, besta frumsamda handritið og besta leikstjórnin. Jókerinn, sem skilaði Óskarsverðlaunum til Hildar Guðnadóttur (og öðrum stórum verðlaunum; bestur leikur til Joaquin Phoenix), er að þessu leyti skyld mynd; gerist innan hins grimma kapítalisma þótt kannski megi ekki finna í henni pólitíska leiðsögn. Vonandi marka þessar myndir tímamót; að kvikmyndafólk sem vill í raun eiga samtal við áhorfendur horfi ekki fram hjá þessum yfirþyrmandi raunveruleika; að kapítalisminn drepur, rústar og eyðileggur mannlegt samfélag, étur upp siðferðið og eyðir öllu sem er fagurt og gott.