- Advertisement -

„Með sömu skítagreiðslurnar frá almannatryggingum alla sína ævi“

Þjóðarskömm Íslands er hvernig farið er með þá sem minnst mega sín.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Sólveig Anna Jónsdóttir vekur athygli á meinsemd sem finna má í flestum þjóðfélögum heims. Það er þessi árátta að ekki megi leiðrétta stöðu þeirra verst settu. Hún beinir vissulega sjónum sínum að ófaglærðum konum sem haldið er niðri í launum, en meinsemdin er mun alvarlegri.

Fátækt er reiknuð út frá hlutfallslegri stöðu einstaklings innan tekjudreifingar allra. Talan er fengi frá OECD, vegna þess að íslensk stjórnvöld þora ekki að reikna þetta út sjálf. Töfratala OECD er 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. (Miðgildi er það gildi sem er í miðjunni. Af 11 gildum, er það gildið sem er nr. 6 í röðinni. Jafnmörg fyrir ofan og neðan. Þetta gildi er því, þegar að tekjum kemur, talsvert undir meðaltali. Miðgildi ráðstöfunartekna tekur síðan mið af öllum sem fá einhverjar tekjur, hvort sem viðkomandi er í 0% starfshlutfalli eða 300%.) Ekki er tekið tillit til þess hvort ráðstöfunartekjur standa undir framfærslukostnaði. Þessi útreikningur kemur raunverulegri fátækt ekkert við, en með þeim er haldið fram að fátækt snúist um röðun í tekjustiga, en ekki möguleika einstaklings (og þess sem hann ber fjárhagslega ábyrgð á) til að lifa af tekjunum. Þannig getur einstaklingur raðast utan fátækramarka, sem á enga möguleika á að framfleyta sér og sínum á tekjunum, meðan annar telst fátækur, þó góður afgangur sé um hver mánaðamót.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það fólk hefur heldur ekki Sólveigu Önnu, Ragnar Þór eða Villa Birgis.

Að reikna út fátækt er flóknara en svo að skoða einhverja tekjukúrfu.

Bæði ófaglært og faglært fólk getur verið fátækt. Verst er þó að jafnaði staða þeirra sem treysta á tekjur almannatrygginga. Munurinn á þeim og hinum, er að fólk í launavinnu á yfirleitt möguleika á starfsaldurshækkunum, starfsframa eða getur skipt um starf í þeirri vona að vinna sig upp úr fátæktinni. Sumir geta unnið fleira en eitt starf eða eiga kost á yfirvinnu. Það geta ekki þeir sem treysta á almannatryggingar. Það fólk hefur heldur ekki Sólveigu Önnu, Ragnar Þór eða Villa Birgis til að berjast fyrir sig eða getur farið í verkfall til að krefjast betri kjara. Nei, það er afskipt og má sætta sig við það sem hrýtur af borði ríkisstjórna hvers tíma: Lágmarkstekjur í tugi ára án nokkurs möguleika á að hífa sig upp af botninum.

Sá sem er orðinn öryrki áður en kemur að þátttöku á vinnumarkaði og vinnur sér því aldrei inn nein réttindi, er með sömu skítagreiðslurnar frá almannatryggingum alla sína ævi og fær ekkert úr lífeyrissjóðnum sínum, því hann greiðir ekki í lífeyrissjóð. Hvort sem viðkomandi verður bara 30 ára eða 100 ára, þá verður þessi aðili að sætta sig við að sleikja botninn á íslenska tekjustiganum. Ekki dugar einu sinni að vinna í einhver ár, þó ekki væri nema í hlutastarfi, til að auka réttindi sín, því lífeyrissjóðurinn horfir til þess hvenær viðkomandi var fyrst metinn öryrki og því koma engar greiðslur frá lífeyrissjóðnum, þurfi sá, sem tókst að vinna í stuttan tíma, að hætta því og treysta eingöngu á örorkubæturnar. Eina sem getur bjargað viðkomandi frá þessu hyldýpi er að eignast maka sem skaffar a.m.k. sæmilega.

Tekjur á Íslandi eru skítatekjur og fólk er fátækt.

Þjóðarskömm Íslands er hvernig farið er með þá sem minnst mega sín. Skömminni er haldið við af sérfræðingum ríkisins með samanburði við önnur lönd og sagt að tekjur lífeyrisþega á Íslandi séu alveg á pari við einhverja sem búa við allt annað kerfi, öðruvísi húsnæðismarkað, annan félagslegan stuðning og að ég tali nú ekki um við allt annað verðlag. Í nýlegri úttekt Business Insider kemur fram að verðlag á Íslandi er það næst hæsta í heimi (á eftir Sviss) og kaupmáttur tekna næst lakastur (af samanburðarlöndunum). (Verðlagið skoraði 124 stig og kaupmáttur 88 stig, þar sem verðlag og kaupmáttur í New York var stillt á 100.) Þetta staðfesti það sem ég hef sagt lengi: Tekjur á Íslandi eru skítatekjur og fólk er fátækt, þó svo að fólk flokkist ekki fátækt samkvæmt einhverjum alþjóðlegum aðferðum.

Með töfratölu OECD geta stjórnvöld á Íslandi barið sér á brjósti og sagt að lítil fátækt sé á Íslandi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var miðgildi ráðstöfunartekna allra Íslendinga um 4.116.000 kr. árið 2018 (vona að ég sé ekki að misskilja gildin sem Hagstofan gefur upp), sem gerir 343.000 kr. á mánuði. 60% af þeirri tölu er 205.800 kr. Eingöngu þeir sem voru með ráðstöfunartekjur undir þessari tölu árið 2018, töldust fátækir. Ekki er spurt hve hár húsnæðiskostnaður fólks var, hve margir þurftu að framfleyta sér á þessum tekjum, hvort og þá hvaða skuldir fólk var að berjast við, hvort viðkomandi væri langveikur með háan lyfjakostnað. Viðkomandi telst ekki fátæk(ur), ef tekjurnar eru yfir 60% af miðgildistekjum og ekkert kjaftæði. Ísland er best, vegna þess að það eru svo fáir með tekjur undir 60% af miðgildistekjum. Skiptir engu, þó það sé ekki einu sinni nóg að hafa miðgildistekjur til að framfleyta sér og sínum, hvað þá bara 60% þeirra. Skiptir engu þó verðlagið sé í himna hæðum og kaupmátturinn sleiki botninn sé borið saman við þau lönd sem við viljum miða okkur við.

Örorkulífeyrisþeginn, sem ég nefndi áðan, sem hefur aldrei verið á vinnumarkaði, á maka og býr því ekki einn, hann fékk úr almannatryggingum kr. 204.352 árið 2018, samkvæmt reiknivél á vef TR, þ.e. ráðstöfunartekjur eftir skatta. Viðkomandi var 1.448 kr. UNDIR 60% af miðgildistekjum. Ef tveir öryrkjar, sem svona er ástatt um, búa saman, þá eru þeir sjálfkrafa settir í flokk OECD yfir fátæka Íslendinga!

Við getum gert betur og við verðum að gera betur!

Greinin er fengin af Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: