Fálkinn villtist af réttri leið
„Það er ekki að ástæðulausu að fylgi Sjálfstæðisflokksins er okkur flokksmönnum hugleikið þessa dagana. Fylgið hefur helmingast á tiltölulega skömmum tíma og mörg góð flokkssystkini hafa yfirgefið flokkinn,“ þannig skrifar einn áhrifamesti flokksmaður Sjálfstæðisflokksins, Viðar Guðjohnsen, í Moggagrein í dag. Hann kallar flokkinn sinn Fálkann, sem er fínt hjá Viðari og allt of sjaldan er gert.
Síðar í greininni skrifar Viðar:
„Sjálfstæðisflokkurinn er frjálslyndur íhaldsflokkur. Íhaldsstefnan, eða varðveislustefnan eins og hún hefur stundum verið nefnd, byggist á hugarfari um að varðveita það sem vel hefur gefist, að varðveita fullveldið, að varðveita það sem sameinar okkur sem þjóð; hið fallega tungumál, hina einstöku mannanafnahefð, hinn hreina og mannúðlega landbúnað, hinn sterka sjávarútveg, kirkjuna sem ver og ræktar tengsl okkar við Guð, hjónabandið sem er burðarstoð fjölskyldunnar og fjölskylduna sem er grunnur samfélagsins.“
Viðar hefur sýnilega áhyggjur af framtíð Fálkans. Treystir ekki núverandi forystu til að fara með flokkinn, Fálkann. Telur þau ekki þekkja sögu Fálkans.
„Stjórnmálamaður sem hefur litla þekkingu á upprunanum er óviss um hvað hann vill eða á hvaða gildum flokkurinn sinn var stofnaður, mun alltaf missa fótfestuna og leitast við að þóknast öllum þegar hinar og þessar falsfréttir birtast. Að lokum mun hann þó ekki þóknast neinum en með atferli sínu kynda undir múgæði og ósamstöðu. Rétt eins mun útsjónarsamur stjórnmálamaður sem veit hvað hann vill, þekkir og temur sér tryggð við grunngildi flokksins síns, auka velvild og traust í sinn garð. Slíkur stjórnmálamaður skeytir ekki um pólitíska vinda; hann siglir vindinn, hlúir að sannfæringu sinni og sýnir grunngildunum hollustu. Grunngildin eru hans hái turn sem gegnir hlutverki vitans í hinu síbreytilega pólitíska veðurfari. Með þeim hætti getur hann brotið niður illt umtal og falsfréttir á þeim stað sem það skiptir máli – í hjörtum landsmanna.“