Vinstri græn komin á byrjunarreit
…krefjast þess að staðið verði við stjórnarsáttmálann eða slíta samstarfinu ella.
Svanur Kristjánsson prófessir skrifaði:
Tapa stjórnmálaflokkar alltaf á stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn?
(Aðeins fyrir nörda um íslensk stjórnmál).
Kjartan Valgardsson vinur minn spurði mig þessarar spurningar á fundi okkar á dögunum. Ég taldi svo vera en man eftir tveim dæmum um hið gagnstæða:
Eftir átta ára samstarf í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum bætti Alþýðuflokkurinn við sig fylgi í þingkosningum 1967 – fór úr 14,2% atkvæða 1963 í 15,7%. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði nokkru fylgi. Þegar upp var staðið varð áframhaldandi samstarf nánast banabiti Alþýðuflokksins sem hlaut einungis 10,5% í næstu þingkosningum (1971).
VG virðist vera á hraðferð á byrjunarreit; hlaut 9.0% í sínum fyrstu kosningum (1999) en er nú samkvæmt skoðanakönnunum að festast í nánast sama fylgi – langt frá fylginu í síðustu þingkosningum (16,9%)..
Í ljósi sögunnar kemur yfirvofandi fylgistap VG ekki á óvart. Alþýðuflokkurinn vann sinn sigur 1967 með því að gera opinberan ágreining við samstarfsflokkinn um stefnuna í landbúnaðarmálum sem Alþýðuflokkurinn taldi óhagstæða neytendum.
Forysta VG virðist hins vegar fylgja Sjálfstæðisflokknum í hverja ófæruna á fætur annarri – allt frá Landsdómshneykslinu til yfirlýsingar fjármálaráðherra um sölu Íslandsbanka á gjafverði. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fylgja hins vegar samþykktum ríkisstjórnar og stjórnarsáttmála einungis þegar þeim hentar (fjölniðlafrunvarp; hálendisþjóðgarður).
Drífa Snædal hafði rétt fyrir sér um hlutskipti VG í þessu stjórnarsamstarfi.
Seinna dæmið er kosningasigur Samfylkingar 2009 eftir stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk frá 2007; fylgið varð 30,3% í stað 27,0.
Þá hafði Samfylkingin hins vegar slitið stjórnarsamstarfinu og nýr formaður Jóhanna Sigurðardóttir var kjörinn í stað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Með ofangreint í huga gæti VG hugsanlega fyrirbyggt hrun í næstu kosningum með ágreiningi við Sjálfstæðisflokkinn; krefjast þess að staðið verði við stjórnarsáttmálann eða slíta samstarfinu ella.
Skrifin eru fengin af Facebooksíðu Svans.