- Advertisement -

Enginn Íslendingur sem býr erlendis sakni verðlagsins frá heimalandinu

Halldór Armand Ásgeirsson skrifaði á vef Ríkisútvarpsins. Miðjan kýs að birta skrifin hér:

Þegar ég var 10 ára gamall fór ég í fyrsta skipti til útlanda. Foreldrar mínir fóru með mig til Kaupmannahafnar. Ég man hvað ég hlakkaði til að fara í Tívolíið, ég man eftir spegla-sólgleraugunum sem ég átti og fannst svo kúl, ég man eftir tilfinningunni þegar þotan gaf í á flugbrautinni og við tókum á loft. En svo er eitt í viðbót sem ég man eftir. Daginn áður en við fórum til Köben sagði vinur minn einlægur við mig: „Þú verður að passa þig á því að setjast ekki í grasið í Kaupmannahöfn.“

„Nú? Af hverju?“ sagði ég.

„Vegna þess að það er svo mikið af pöddum, maurum og köngulóm í grasinu í útlöndum. Þú verður bitinn um leið.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessi vinur minn var ekkert að reyna að plata mig. Hann hélt þetta í alvörunni. Hann hélt að útlent gras væri hættulegt en íslenskt gras öruggt. Það væri auðvelt fyrir mig að afskrifa þetta litla móment, þennan skemmtilega misskilning, sem barnalega vitleysu, en ég held hins vegar að þarna – 10 ára gamall á fótboltavellinum í Hlíðaskóla – hafi ég í fyrsta skipti orðið fyrir íslenskri ríkishugmyndafræði … hugmyndafræði sem hefur vitaskuld dunið á mér linnulaust allar götur síðan, hugmyndafræði sem ég kýs að kalla hreinleikagoðsögnina og mætti draga saman sem svo: Ísland er hreint, en umheimurinn er skítugur, Ísland er flekklaus eyja í syndugum heimi, á Íslandi eru engin vandamál.

Tveimur árum eftir Kaupmannahafnarferðina fór ég síðan til Spánar og ég man eftir því að þá var ég mjög upptekinn af því að maður ætti aldrei að panta sér kjúkling á veitingastöðum erlendis, því þá fengi maður salmonellu. Ég hef spurt fólk í kringum mig sem hefur staðfest að það trúði lengi vel því sama. Það hélt að erlendur kjúklingur væri hættulegur og að útlendingar kynnu í þokkabót ekki að elda hann.

Þetta eru tvö lítil dæmi sem er auðvelt að hlæja að en þau eru hins vegar vísbendingar um það hvaða aðferðum er beitt til þess að stýra viðhorfum almennings á Íslandi, framleiða samþykki og halda fólki þægu. Íslenska góðærið var keyrt áfram á nákvæmlega sömu vitfirringu; það væru bara Íslendingar sem kynnu raunverulega að sýsla með fé, sem er alveg jafnbrjáluð hugmynd og sú að Íslendingar séu einir um að vita það að maður þarf að elda kjúklinginn í gegn.

Aldingarðurinn í norðri
Heimsmynd eyjunnar er náttúrulega tvískipt; það er til heimur innan strandlengjunnar og svo heimurinn utan hennar. Það blasir við að til þess að hafa stjórn á eyjaskeggjunum er mikilvægast að tryggja að þeir gangi einfaldlega út frá því að lífið utan við strandlengjuna sé verra en innan hennar, að grasið sé alltaf grænna hérna megin og setji þess vegna engin spurningarmerki við það hvernig samfélagið á eyjunni er rekið. Íslensk stjórnvöld hafa af þessum sökum mjög ríka hneigð til þess að túlka veruleika Íslendinga fyrir þá, segja þeim hvernig þeim sjálfum líður og brýna fyrir þeim að lífið í Norður-Atlantshafi sé það næsta sem jarðneskir menn komast því að lifa í aldingarðinum í Eden.

Að sama skapi taka þau því jafnan illa þá sjaldan sem umheimurinn beinir sjónum sínum að Íslandi og bendir á að þessi aldingarður sé að stórum hluta leikmynd. Í liðinni viku birtist umfjöllun bandaríska fjölmiðilsins Business Insider um dýrustu lönd í heimi. Þar trónaði Ísland á toppnum sem dýrasti staðurinn á plánetunni jörð og að sama skapi kom fram að kaupmáttur hérna héldist engan veginn í hendur við verðlag.

Af þessu tilefni skrifaði ég pistil hér sem bar yfirskriftina „Ísland er óafsakanlega dýrt land“, ekki vegna þess að ég held að Business Insider sé heilög ritning, heldur vegna þess að svona fréttir eru staðfesting að utan á því sem allir vita að innan: Ísland er ótrúlega dýrt land. Ég hef aldrei á ævi minni hitt neinn sem finnst Ísland ekki óheyrilega dýrt, það hefur aldrei gerst, það bókstaflega hefur ekki gerst einu sinni. Það vita allir að það eru stórir þjóðfélagshópar á Íslandi, sem eiga ekki fyrir því að draga fram lífið þar, það vita allir að ungt fólk, sem á ekki foreldra sem geta keypt handa þvi húsnæði og er ekki í hálaunastarfi, hugsar sér til hreyfings, vegna þess að það veit að líf þess mun alltaf verða basl, það vita allir að það er töluvert um það að eldra fólk flýi landið vegna þess að peningarnir sem það fær duga ekki, það vita allir að fólkið sem vinnur mikilvægustu störfin á Íslandi fær 270 þúsund kall útborgaðan, meðan fólk í bullstörfum sem skipta engu máli syndir í seðlum. Það vita þetta allir – pistillinn var mikið lesinn vegna þess að það vita þetta allir.

Að rægja útlendinga fyrr og nú
En íslensk stjórnvöld voru ekki lengi að bregðast við þessari umfjöllun Business Insider. Á vef stjórnarráðsins voru í skyndi birt alls konar gröf og tölfræði sem sögðu að á Íslandi væri engin fátækt, þar væru hæstu launin, mesti kaupmátturinn, verðlag væri ekki hátt, tekjudreifing ofboðslega jöfn og svo framvegis. Í stuttu máli þá er allt upp á 10 á Íslandi og bara vitleysingar sem trúa einhverju öðru. Svo næst þegar þú starir í sjokki á kvittunina í matvöruverslun, kæri hlustandi, þá skaltu muna að þetta er allt saman þér fyrir bestu. Lífið er ekki ógeðslega dýrt á Íslandi, þú heldur það bara, vegna þess að þú veist ekki betur.

Ég er ekkert að saka stjórnarráðið um lygar. Gröf og tölfræði endurspegla bara ekkert endilega kjör og upplifun stórra þjóðfélagshópa. Og það er svolítið sjokkerandi að stjórnvöld og launaðir talsmenn einhverra hagsmunasamtaka bregðist illa við þegar bent er á alþekktar staðreyndir, eða þegar fjölmiðlar út í heimi komast að óþægilegri niðurstöðu um Ísland. Það er greinilegt að við höfum ekkert lært. Á bóluárunum var það samstillt átak stjórnvalda og fjölmiðla að gera lítið úr og rægja erlenda sérfræðinga sem sögðu að Ísland væri froðuhagkerfi, saka þá um annarleg sjónarmið og eiginlega gaslight-a þá, eins og sagt er á ensku, sem sagt gera þeim upp vitfirringu. Við vitum betur, sögðu ráðamenn. En þið vissuð ekki betur. Og þið vitið ekki heldur betur í dag vegna þess að þið eruð ekki í neinum tengslum við veruleika fólksins sem þið eigið að vera að þjóna, en ekki stjórna.

Hin eina leið til þess að vera til
Ísland er óheyrilega dýr staður – allir vita þetta – en stjórnmálamenn eru viðkvæmir fyrir því að þetta sé sagt vegna þess að þeir eru að stærstum hluta ábyrgir fyrir því að landið sé svona dýrt og launamál þar svona kaótísk. Það er ekki eins og dýrtíðin sé náttúrulögmál, hún er aðallega afrakstur pólitískra ákvarðana, ekki einungis, en aðallega. Ísland er svo dýrt að landið leyfir bara einn lífsmáta, sem er sá að vera í öruggri og vel launaðri vinnu, vinna stanslaust, og helst eiga maka, sem einnig er í öruggri og vel launaðri vinnu og vinnur líka stanslaust.

Þú þarft mörg hundruð þúsund krónur á mánuði til þess að eiga fyrir grunnatriðum tilverunnar. Og já, já, ef þú ert í öruggri og vel launaðri vinnu hefurðu það fínt. En ef ekki, þá ertu fökkt, afsakið orðbragðið, vegna þess að það er ekki valkostur að lifa spart, eða lifa einhvern veginn öðruvísi en eftir þessari einu leið. Annað hvort spilarðu þennan leik eða ferð. Í síðasta pistli talaði ég um ungt fólk og eldri borgara. En hérna er önnur spurning: Hver er meginástæða þess að íslenskir listamenn halda meira og minna til í útlöndum? Vegna þess að þeir eru í 99,9% tilvika láglaunafólk og lífið er ekki gott fyrir láglaunafólk á Íslandi af því það er ekki hægt að lifa spart.

Það saknar enginn íslensks verðlags
Þrátt fyrir þetta svartagallsraus þarfnast ég engrar fræðslu um að lífið sé betra á Íslandi en víða annars staðar. Ég ætla ekki að láta eins og ég sé einhver heimsborgari sem spígsporar með einglyrni um stræti erlendra stórborga – inni í mér syngur fyrst og fremst vitleysingur – en ég tel mig hafa dvalið nægilega víða til að bera hluti saman, og það vill svo til að ég bý í hverfi í erlendri borg þar sem fyrirfinnst fátækt, eymd og hryllingur á allt öðrum skala en nokkurs staðar á Íslandi. Ég þarf ekki að gera annað en að líta út um gluggann til að sjá að það er margt við íslenskt samfélag sem er réttilega öfundsvert fyrir alla heimsbyggðina. Það er alveg rétt að ákveðnu leyti að lífskjörin séu óvíða betri. En það er algjör misskilningur að halda að þessi lífsgæði séu fyrst og fremst efnahagsleg – hvað þá jöfn eða hafin yfir allan vafa – bara vegna þess að Íslendingar fyllast barnslegri gleði þegar þeir sleppa til útlanda með krónurnar sínar og finnst skyndilega allt svo ódýrt og lífið gott.

Prófaðu bara að spyrja einhvern sem býr erlendis hvers hann saknar frá Íslandi. Ég geri þetta sjálfur reglulega. Ég lofa þér því að enginn mun segja: Heyrðu, ég sakna svo matvælaverðsins. Ég sakna svo svakalega hvernig farið er með skattfé á Íslandi. Ég sakna svo íslenska verðlagsins. Ó, hvað ég sakna verðtryggingarinnar og óvissunnar. Trúðu mér, það mun enginn, ekki ein einasta manneskja, segja að hún sakni þessara hluta, og það þrátt fyrir að þú veifir framan í hana tölfræði stjórnarráðsins. Nei, ef þú spyrð Íslending í útlöndum hvers hann saknar þá er svarið ekki eitthvað sem stjórnarráðið á tölfræði yfir heldur: Ég sakna fjölskyldunnar minnar, ég sakna vina minna, ég sakna sundlauganna, ég sakna fjallaloftsins, ég sakna þess að sjá hafið, ég sakna húmorsins, ó, jesús minn góður hvað ég sakna þess að fólk skilji kaldhæðni, ég sakna náttúrunnar, ég sakna sveitarinnar, ég sakna löturhægu sólarupprásarinnar í desember, ég sakna sólarlagsins í ágúst, ég sakna kæruleysisins, ég sakna kyrrðarinnar, ég sakna þess að hafa góða ofna og þykka veggi, ég sakna þess að tala íslensku eða einfaldlega ég sakna þess að vera heima hjá mér.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: