- Advertisement -

Aukning í notkun sterkra verkjalyfja

Á Íslandi jukust ávísanir sterkra verkjalyfja um 5% milli áranna 2012 og 2013, fóru úr 2.081.643 dagskömmtum (DDD) árið 2012 í 2.184.262 árið 2013. Skýringuna á þessari aukningu má að hluta til rekja til þess að fleiri fengu ávísað lyfjunum árið 2013 en 2012 en aukningin virðist vera nokkuð jöfn eftir kyni og aldri.

Á vef Landlæknis kemur fram að þessi lyf tilheyri flokki ópíóíða (N02A) og eru ætluð sjúklingum sem glíma við mikla eða mjög mikla verki. Um er að ræða lyf eins og morfín (Contalgin, Morphine), kódein (Parkodin forte), oxýkódon (OxyContin, Oxycodone) o.fl. Það vekur athygli að notkun er nokkuð mismunandi eftir landshlutum og er heildarnotkun að aukast í flestum landshlutum á þessu tímabili,

Eins og segir í sérlyfjaskrá eru mörg þessara lyfja ekki ætluð við bráðaverkjum og á aðeins að nota undir ströngu eftirliti læknis.

Hætta er á að sjúklingar sem glíma við langvarandi erfiða verki myndi þol gegn áhrifum verkjalyfja og er oft erfitt fyrir lækna að aðstoða fólk sem bæði glímir við verki og lyfjafíkn. Meðferð við verkjum hefur verið í boði á stofnunum eins og Heilsustofnun NLFÍ, á Reykjalundi, þar sem hefur verið starfrækt meðferðarsvið fyrir einstaklinga með langvinn verkjavandamál af ýmsu tagi, og á Landspítala, en þar hefur verið komið á fót ráðgefandi verkjateymi með sérfræðingum í verkjameðferð. Þeir sjúklingar sem þjást af lyfjafíkn fara oft að eigin frumkvæði eða að beiðni lækna í afeitrun á meðferðarstofnanir vegna ofnotkunar lyfja. Mörg dæmi eru um að einstaklingar klári ekki meðferð eða falli aftur og leita þá í meðferð hjá læknum sem hafa ekki upplýsingar um fíknisögu þeirra eða tilraunir til afeitrunar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Andlát vegna lyfjaeitrana
Hjá Embætti landlæknis eru til skoðunar ávísanir til einstaklinga sem hafa látist vegna lyfjaeitrana og oft greinast sterk verkjalyf í hættulegum styrk í lífsýnum þeirra. Fjöldi eitrana vegna lyfja undirstrikar hversu hættuleg þessi lyf eru, en á árinu 2014 hefur Embætti landlæknis haft 16 andlát til skoðunar.

Þegar í ljós kemur að andlát er rakið til lyfjaeitrunar er kannað hvort hinn látni hafi fengið lyfjunum ávísað stuttu fyrir andlát. Algengt er í slíkum tilfellum að annaðhvort hafði hinn látni ekki fengið lyfjunum ávísað eða að langur tími var frá því að lyfin voru leyst út þar til viðkomandi einstaklingur lést. Þá er einnig algengt að önnur lyf en þau sem hinn látni fékk ávísað eða ólögleg fíkniefni finnist jafnframt í sýnum.

Ábendingar berast embættinu reglulega um misnotkun og sölu þessara lyfja. Það er áhyggjuefni að þessi lyf virðast eiga greiða leið til fólks með alvarlegan fíknivanda.

 Sjá frétt á vef Landlæknis.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: