- Advertisement -

Málþing um myndasögur

Menningarfélagið, félag framhaldsnema í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, heldur málþing um myndasögur föstudaginn 7. nóvember næstkomandi. Málþingið fer fram í stofu 207 í aðalbyggingu háskólans og stendur frá kl. 16-18.

Fyrirlestrar verða eftirfarandi:

Nökkvi Jarl Bjarnason, meistaranemi í almennri bókmenntafræði.
Hann veltir fyrir sér umbroti tveggja nýrra fræðigreina, myndasögu- og leikjafræði, og skoðar hvernig þessi tvö fræðasvið skilgreina sérstöðu sína ásamt tengslum við aðrar fræðigreinar. Ætlunin er að fá innsýn inn í áherslur og sjálfsskilning fræðanna hvað varðar stefnumótun þeirra og fræðileg viðföng.

Kristján Már Gunnarsson, meistaranemi í markaðsfræði.
Kristján mun ræða hvernig hægt er að nota myndasöguna sem miðil í fræðilegum tilgangi, af hverju og hvernig hún virkar á annan hátt en ritmiðillinn. Þar mun hann sérstaklega skoða undirliggjandi strúktúr myndasögunnar, hvernig hún notar ímyndunaraflið og hvernig höfundur fræðibóka getur gert lesandann að þáttakanda í því sem er að gerast í efninu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Júlíus Valdimarsson, lauk BA prófi í grafískri hönnun frá LHÍ og hyggst leggja stund á myndskreytingar.
Hann tekur fyrir uppbyggingu myndasagna, hvað gerir þær sérstakar ásamt því hvaða tækni og tól eru notuð til þess að hanna myndasögur. Myndasögur eru fyrst og fremst miðill – form af tjáningu, leið til þess að koma skilaboðum á framfæri líkt og bækur, kvikmyndir og tónlist. Þær segja sögu og eru sjónræn listaverk á sama tíma. Þær deila mörgum eiginleikum með bókum og kvikmyndum en engu að síður eru myndasögur hvorki bækur né kvikmyndir.  Það sem gerir myndasögur sérstakar eru tólin og hönnunin sem stjórna flæði tíma. Hvernig talblöðrur eru staðsettar, stærð ramma, áhrif lýsingarleturs og svo að sjálfsögðu myndbygging og innihald myndefnis. Með því að útskýra virkni þessa þátta er sóst eftir því að sýna fram á sérstöðu myndasagna sem miðils.

Einnig verður fjallað um lestur myndasagna og tengingu þeirra við list.

Eftir málþingið verður boðið upp á léttar veitingar til að væta kverkar við spjall um myndasögur.

Sjá frétt á Bókmenntavefnum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: