…sanngjarnar kröfur láglaunakvenna í Eflingu um mánaðarlaun sem ná varla mánaðarlegum aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar.
Jón Örn Marinósson skrifar:
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Samfylkingar, og fylgismenn hans í borgarstjórn hafa komið sér í sömu stöðu og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og flokksmenn hennar í Vinstri-grænum: geta sig hvergi hrært vegna ofurvalds gallharðra kapítalista og spekúlanta sem vex sífellt ásmegin í boði íslenskra kjósenda og sundurtættrar hreyfingar vinstra- og félagshyggjufólks. Nú verðum við jafnvel vitni að því að borgstjóri Samfylkingar og forsætisráðherra Vinstri-grænna geta hvorugt tekið undir sanngjarnar kröfur láglaunakvenna í Eflingu um mánaðarlaun sem ná varla mánaðarlegum aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar, alþingismanns. Nei, þau Dagur og Katrín skýla sér á bak við talsmenn kapítalista og spekúlanta og þegja þunnu hljóði. Hlýtur að vera dapurlegt hlutskipti fyrir þau en dapurlegast þó að þessu verður ekki breytt nema með fórnum og átökum sem íslenskir kjósendur treysta sér ekki til að leggja í.