- Advertisement -

Halldór var ósammála Davíð en elti

Framsóknarmennirnir, Jón Kristjánsson og Jón Sigurðsson, sögðu í þætti á Hringbraut, að Halldór heitinn Ásgrímsson hafi verið andsnúinn að lýsa yfir velvild Íslands vegna innárásarinnar í Írak. Þeir sögðu Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra hafa einn viljað styðja árásina.

Halldór hafi hins vegar staðið frammi fyrir orðnum hlut og ákveðið að standa að baki Davíðs í þessu erfiða máli. Halldór var hart gagnrýndur innan síns flokks en þeir sögðu hann hvergi hafa kvikað í stuðningi við Davíð Oddsson.

Í þættinum, sem átti að vera um pólitískan feril Halldórs, vegna nýútkominnar bókar Guðjóns Friðrikssonar um Halldór, komust þeir nafnarnir lítt áfram.

Halldór var merkur stjórnmálamaður. Sat á Alþingi í nærri þrjátíu ár og var sjávarútvegsráðherra 1983–1991 og samstarfsráðherra um norræn málefni 1985–1987, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988–1989, samstarfsráðherra Norðurlanda 1995–1999, utanríkisráðherra 1995–2004, forsætisráðherra 2004–2006.

Halldór var sá sjávarútvegsráðherra sem innleiddi kvótakerfið. Þetta vita nú flestir. Halldór var formaður Framsóknarflokksins í þrettán ár og þar áður varaformaður í álíka mörg ár. Í formannstíð Halldórs beygði hann flokkinn mikið til hægri og Framsókn varð hægrisinnaður Evrópuflokkur. Halldór var mikið í mun að við sæktum um aðild að Evrópubandalaginu.

Halldór var oft þurr á manninn. Mig langar að segja sögu sem sýnir að Halldór gat verið hinn skemmtilegasti. Svo bar við að Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan stó á einhverjum tímamótum og blés til fagnaðar í Súlnasal Hótel Sögu. Ég var veislustjóri og Halldór var heiðursgestur og ræðumaður kvöldsins. Halldór fór á kostum. Ég man enn eina söguna sem hann sagði. Hún var nánast svona:

Það voru tveir karlar, í einhverri byggð á Austurlandi, sem ég man ekki hver var, sem bjuggu hlið ið hlið. Og höfðu gert í áraraðir. Það var kalt á milli þeirra. Óvinskapur. Svo kom að því að annar þeirra átti stórfmæli innan skamms. Sá siður var í byggðinni að það var flaggað þegar einhver átti stórafmæli. Hinn nágranninn var ekki með flaggstöng við sitt hús. Hann birtist í kaupfélaginu. Hann pantaði flaggstöng og lagði áherslu á að hún yrði komin fyrir ákveðin dag. Sem var einmitt afmælisdagur nágrannans. Þetta spurðist um allt og fólki þótti gott að vita að hann legði þetta á sig til að flagga af tilefni afmælisins í næsta húsi.

Jæja, flaggstöng kom og stóri dagurinn rann upp. Það var flaggað við hvert hís. Nema eitt. Sá hafði fengið flaggstöng til að flagga ekki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: