SFS (áður LÍÚ): Samtök risanna vinna gegn smærri fyrirtækjum
Gunnar Smári skrifar:
Hér má sjá stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, 17 manns. Þarna eru fulltrúar 15 útgerðarfyrirtækja sem fá úthlutað samtals rúmlega 72% af öllum kvóta, séu tengd fyrirtæki talin með stærstu samstæðunum. Meirihluti í stjórn, átta atkvæði, gæti myndast meðal 8 stærstu útgerðanna sem fá úthlutað rúmlega 59% af kvótanum. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru því ekki það sem nafnið gefur til kynna, samtök allra fyrirtækja í sjávarútvegi, yfir 350 útgerða og nokkurs fjölda af fiskvinnslu- og sölufyrirtækja. Þetta eru fyrst og síðast samtök stærstu kvótafyrirtækjanna, þeirra sem fá í sínar hendur megnið af auðlindum almennings.
Samtök fyrirtækjaeigenda eru ekki lýðræðisleg samtök. Þar fara atkvæði ekki eftir fjölda (hvert fyrirtæki eitt atkvæði) heldur félagsgjöldum, sem reiknuð eru út frá veltu eða starfsmannafjölda (hver króna, eitt atkvæði). Þetta eru því ekki hagsmunasamtök allra fyrirtækja, sem flest eru lítil eða meðalstór fjölskyldufyrirtæki, heldur fyrst og síðast hagsmunasamtök risanna á hverjum markaði, oftast fyrirtækja sem náð hafa einokunar- eða fákeppnisstöðu á sínum markaði og geta haldið samkeppni frá smærri fyrirtækjum niðri í krafti þeirrar stöðu.
Nafnið á Samtökum atvinnulífsins er þannig algjör öfugmæli. Í fyrsta lagi eru þetta ekki samtök atvinnulífsins, því þá væri launafólk þar með. En jafnvel þótt við lítum fram hjá þeim hroka (að fyrirtækjaeigendur telji sig eina vera atvinnulífið) þá eru Samtök atvinnulífsins aðeins þröng hagsmunasamtök utan um allra stærstu fyrirtækin og allra stærstu eigendur þeirra. Einyrkjar, lítil og meðalstór fyrirtæki, sem alltaf eru drifkraftur atvinnulífsins, sem skapa ætíð flest störf og innleiða mestra nýjungar; þessi fyrirtæki eru algjörlega áhrifalaus innan samtaka fyrirtækjaeigenda, sem gæta þar af leiðandi ekki hagsmuna smærri fyrirtækja, heldur reyna þvert á móti á leggja steina í götur þeirra, til að styrkja enn frekar stöðu stærri fyrirtækjanna.
Það er þess vegna sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa ætíð og alltaf með þeim stóru meðan þeir éta upp hina litlu. Fyrir fáum árum, árin 2005/06, fengu 950 útgerðir úthlutað aflamarki. Í ár er fjöldinn kominn niður í rúmlega 350. Hefur SFS (eða LÍÚ, forveri þessara samtaka) lýst áhyggjum yfir þessu, hvernig rekstur smærri báta, þar sem útgerðarmaðurinn er jafnframt skipstjóri, fyrirtækjaform sem var æðakerfi margra sjávarbyggða og byggði þar upp samfélag, sjálfstæða einstaklinga og stolt fólk; hefur SFS lýst yfir áhyggjum af útrýmingu þessara fyrirtækja og farvegs fyrir athafnaþrá einstaklingana (svo sótt sé í orðfæri klassískra hægri manna frá síðustu öld)?
Ó, nei. SFS, sem kallar sig fulltrúa allra fyrirtækja í sjávarútvegi hefur fagnað þessu. Hvers vegna? Vegna þess að SFS er samtök þeirra sem sölsað hafa undir sig megnið af auðlindum almennings og mulið undir sig þær útgerðir sem ekki höfðu sama aðgengi að lánsfé, ekki sama stuðnings stjórnmálafólks og ekki samtök á borð við SFS/LÍÚ að baki sér. Eða SA, hin svo kölluðu Samtök atvinnulífsins. Og enn síður Verslunarráð, sem er hugmyndaveita fákeppni- og einokunarfyrirtækja, mótar stefnu (sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur upp, og síðar allir aðrir þingflokkar) til að mylja undir stórfyrirtækin og færa sem allra mest fé til allra stærstu eigendum þeirra upp úr rekstrinum.
Eitt af undrum veraldar er að einyrkjar og eigendur smárra og meðalstórra fjölskyldufyrirtækja skuli láta það yfir sig ganga, að þau samtök sem vinna harðast af því að knésetja þau, skuli gera það í þeirra eigin nafni.