„Sjáiði ekki veisluna,“ sagði Árni Matt. Gæjarnir í Gamma töldu sig sjá veisluna. Þeir innréttuðu bæði vínkjallara og koníaksstofu í „vinnustaðnum“ sínum. Hvorki þeir né félagið höfðu minnstu efni á ruglinu svo einhverjir aðrir ámóta, í öðru kompaníi og í öðru húsi, lánuðum þeim hálfan milljarð með veði í húsinu og þá kannski sérstaklega í vínkjallaranum og koníaksstofunni.
Áður var sagt: „Eftir einn ei aki neinn“. Hvers vegna vita flest okkar. Gæjarnir í Gamma, sem höfðu bæði vínkjallara og koníak eins og hver gat í sig látið, töldu sig vita betur. Þeir náðu til sín ótal peningnum héðan og þaðan. Lögðu á ráðin og brotlentu. Allsgáðir? Það hefur ekki komið fram. Í frétt Moggans í morgun er einhvers onar innihaldslýsingin á geggjuninni. Lær hana fylgja með hér að neðan. Eftir lestur hennar vaknar sá grunur að víðar séu vínkjallarar og koníaksstofur. Allt of víða.
-sme
Gefið var út tryggingabréf á húseignina 2. maí í fyrra. Gerði Gamma Capital Management þá kunnugt um að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum við Kviku banka væri gefið út 500 milljóna bréf. Samkvæmt heimildum blaðsins þarf upphæðin ekki að endurspegla nákvæmlega verðmæti eignarinnar. Á hinn bóginn hljóti fjárhæðin á tryggingabréfinu að fara nærri áætluðu verðmæti eignarinnar, svo tryggingin haldi.
Samkvæmt afsali sem gefið var út í október 2013 keypti GAM Management hf., sem þá var til húsa að Klapparstíg 19, eignina af Dalsnesi ehf. Umsamið kaupverð kom ekki fram á afsalinu, né heldur virðist kaupsamningur hafa verið birtur. Hins vegar voru gefin út tvö veðskuldabréf á eignina í október 2013 að fjárhæð 80 og 120 milljónir króna en kröfuhafi var Arion banki.
Á vefsíðu Gamma er fjallað um sögu Garðastrætis 37. Húsið sé byggt árið 1939 í fúnkísstílnum og sé eitt fyrsta slíka húsið á Íslandi. Arkitekt var Gunnlaugur Halldórsson en húsið var reist fyrir Magnús Víglundsson athafnamann sem keypti lóðina árið 1936.
Fyrstu árin hafi húsið varið heimili Magnúsar en jafnframt hafi hann stýrt rekstri sínum þaðan. Magnús hafi síðar boðið húsið til sölu 1965.
Ríkissjóður hafi þá keypt húsið. Meðal annars hafi þar haft aðsetur Tunnuverksmiðja ríkisins og hin sögufræga Síldarútvegsnefnd sem húsið hafi síðar verið kennt við.
Húsið var selt í annað sinn og fluttu auglýsingastofan Fíton og margmiðlunarfyrirtækið Atómstöðin þangað um aldamótin. Gamma tók því næst við húseigninni.