Aðeins 90 ný hjúkrunarrými á tíu árum
„Það verður ekki séð samkvæmt þeim áætlunum sem heilbrigðisráðuneytið birti nú síðast í haust að það séu nein ný hjúkrunarrými svo talist geti sem sett hafa verið af stað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Samt má ætla að þörfin sé fyrir a.m.k. 100 ný rými á ári. Til að halda þeim tölum í samhengi: Nettóaukning í hjúkrunarrýmum á undanförnum áratug er u.þ.b. 90 rými í það heila, ekki á ári hverju heldur í það heila. Og enn bólar ekki neitt á neinum áformum. Hæstv. ráðherra boðaði átak á höfuðborgarsvæðinu, 200 ný rými, en samkvæmt nýjustu áætlun heilbrigðisráðuneytisins hefur þeim rýmum ekki einu sinni verið fundin lóð, hvað þá að verið sé að undirbúa útboð eða koma slíkum rýmum í framkvæmd. Að óbreyttu mun fráflæðisvandi Landspítalans aðeins halda áfram að aukast út þetta kjörtímabil, nema eitthvað verði að gert. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ráðherra gera?“
Það var Þorsteinn Víglundsson sem spurði heilbrigðisráðherrann Svandísi Svavarsdóttur. Hún svaraði: „Það er rétt sem kemur fram í máli háttvirts þingmanns að það er eitt stærsta og mikilvægasta viðfangsefni, ekki bara heilbrigðiskerfisins heldur líka reksturs hins opinbera og samfélagsins, að tryggja viðunandi þjónustu fyrir sífellt fleiri aldraða íbúa. Eins og kemur fram í máli og spurningu hv. þingmanns voru kynnt hér áform þegar ég tók við í heilbrigðisráðuneytinu um umtalsverða uppbyggingu og nú í lok næsta mánaðar verða opnuð 99 rými á Sléttuvegi. En af því að háttvirtur þingmaður hefur haldið sig við það að lítið eða ekkert hafi gerst á mínum tíma og við séum meira að opna eitthvað sem einhverjir aðrir hafa byrjað á þá erum við bæði að tala um nýjar framkvæmdir á Húsavík, Höfn og í Árborg, skóflustunga hefur verið tekin í Árborg.