- Advertisement -

Skylmingar í þingsal: Bjarni lætur okkar borga 230.000 að óþörfu

Ég er ekki að láta skattgreiðendur gera eitt eða neitt.

Þau tókust á í þingsalnum í gær, Helga Vala Helgadóttir og Bjarni Benediktsson.

Helga Vala: Tölum um tölur.

Helga Vala: „Tölum um tölur. Hæstvirtur fjármálaráðherra lætur skattgreiðendur borga að óþörfu 230.000 kr. á sólarhring á bráðamóttöku Landspítala vegna þess að sjúklingar komast ekki á fullar eða lokaðar deildir á sjúkrahúsinu sem kosta 70.000 kr. á sólarhring. Hæstvirtur fjármálaráðherra lætur skattgreiðendur borga að óþörfu 230.000 kr. á sólarhring fyrir sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi í stað þess að borga 40.000 kr. fyrir sólarhringinn á öldrunarheimilum. Hæstvirtur fjármálaráðherra lætur skattgreiðendur borga að óþörfu ferða- og dvalarkostnað fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem ekki geta sótt grunnheilbrigðisþjónustu í heimabyggð og færir þá á Landspítala sem er algjörlega yfirfullur. Þrátt fyrir að við séum mögulega ekki sammála um margt, hæstvirtur fjármálaráðherra, getum við ekki verið sammála um að þetta sé afskaplega óskynsamleg ráðstöfun á skattfé landsmanna?“

Þú gætir haft áhuga á þessum
Bjarni Ben: Það er eitthvað nýtt frá Samfylkingunni.

Bjarni Ben: „Ég er ekki að láta skattgreiðendur gera eitt eða neitt. Ég hef stutt hvern heilbrigðisráðherrann á fætur öðrum í ýmiss konar átaksverkefnum, m.a. ætla ég að vísa til þess að fyrir nokkrum árum létum við opna Vífilsstaðaspítala að nýju til að létta á Landspítalanum svo að hann yrði ekki stíflaður vegna mikils þrýstings á bráðamóttökunni. En þrátt fyrir ýmiss konar átaksverkefni lendir bráðadeildin ítrekað í vanda. Sá málaflokkur, virðulegi þingmaður, er hjá fagráðherra. Það er ágætt hjá háttvirtum þingmanni að taka þessa umræðu upp við hæstvirtan heilbrigðisráðherra. Ég bendi hins vegar á að ég hef verið talsmaður blandaðra lausna í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ég hef talað fyrir því að við ættum að berjast gegn hvers kyns sóun í kerfinu, að við ættum að nýta sveigjanleika einkaframtaksins en fleiri raddir í þingsal hafa talað gegn einkaframtakinu, jafnvel þegar augljóst er á öllum tölum að það gæti leitt til sparnaðar fyrir skattgreiðendur sem háttvirtur þingmaður er skyndilega orðinn talsmaður fyrir. Það er eitthvað nýtt frá Samfylkingunni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: