- Advertisement -

Reykjavík er ekki fjölskylduvæn borg

Auðvitað viljum við stytta vinnuvikuna en þá verðum við að byrja á réttum enda.

„Reykjavíkurborg getur ekki státað sig af því að vera fjölskylduvæn borg þegar hún sem vinnuveitandi gefur hinum lægst launuðu hjá sér ekki færi á því að njóta tíma með börnum sínum, þar sem vinna í fullu starfi dugar ekki fyrir helstu nauðsynjum. Það eru margir í þeirri stöðu að geta ekki sótt börnin sín fyrr úr leikskóla, þar sem þeir eru í vinnu eða í námi eða hafa engan til að treysta á. Í stað þess að loka leikskólum fyrr, af hverju er ekki hægt að skoða frekar fjölgun starfsfólks á leikskólum? Og það að verulega bæta starfsaðstæður? Að skoða hvort ráða megi starfsfólk til í að manna vaktir með það að markmiði að dreifa álaginu? Auðvitað viljum við stytta vinnuvikuna en þá verðum við að byrja á réttum enda,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, og sendir sneið til meirihlutans í borgarstjórn.

Nýjar fréttir daglega – miðjan.is

„Meirihlutinn í borginni vill stytta opnunartíma leikskólanna til þess að létta álagi af starfsfólki, á sama tíma er hann ekki tilbúinn til þess að létta álagi af hinum lægst launuðu í borginni sem hafa verið samningslausir í marga mánuði. Eins og staðan blasir við mér, þá vill meirihlutinn í borginni ekki stytta vinnuviku hinna lægst launuðu, né hækka laun þeirra. Ætli margir í láglaunastörfum þurfi einmitt ekki að treysta á leikskólaþjónustu? Hvernig væri að byrja á því að tryggja öllum styttri vinnuviku áður en leikskólar loka fyrr?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: