Frú Katrín Jakobsdóttir,
þú sem fékkst mig til að kjósa þig og þinn flokk af því að þú ætlaðir að gera mitt líf og annarra ellilífeyrisþega sómasamlegt og stoppa þann stuld sem ríkisstjórnin hefur af eldri borgurum. ÞÚ hefur því miður ekki staðið við þau loforð svo mig langar að segja þér að á mánuði fæ ég 149.000 kr í ellilífeyrir eftir að búið er að taka skatt og skerða hann og þetta er minn mánaðar lífeyrir, eruð þið svo blönk í ríkisstjórninni að þið verðið að fá pening hjá ellilífeyrisþegum til að tæma ekki kassann? Hvernig væri að eyða minna?
Finnst þér þetta vera í lagi? Hvar eru mörkin? sú upphæð sem ætlast er til að fólk þurfi til að lifa af, hver er hún? Þú talar um hve hagstætt verðlag sé á Íslandi og hagsældin mikil en hve mikið get ég keypt fyrir þessar krónur sem þín ríkisstjórn skilur eftir fyrir mig til að lifa á þegar þið hafi stolið mínum sparnaði og meira að segja stolið þeim litlu vöxtum sem sparibókin mín fékk á þessu ári, hverja einustu krónu?
Af hverju getur þú ekki spyrnt niður fótum og lagað þetta? Af hverju þorirðu ekki að standa upp í hárinu á Bjarna Ben? Af hverju gastu ekki verið stolt okkar kvenna í stað þess að láta karla ganga yfir þig á skítugum skónum og sjálfsagt hlægja að þér líka? Þetta mun reynast þér illa því fólk er dæmt af gjörðum sínum. Þegar ég bjó í Seattle og þú varst að reyna að komast í ríkisstjórn þá varstu aldeilis fljót að skrifa mér til baka til að fá atkvæði mitt og þeirra úti sem áttu rétt á að kjósa og ég lét blekkjast og fékk fólk til að kjósa þig, aldrei datt mér í hug að þú mundir snúa svona baki við okkur og þeim málstað sem þú þóttist standa fyrir.
Kveðja Margrét S. Sölvadóttir.