- Advertisement -

Íslenskir kapítalistar í hátíðaskapi

Hátíðarblönduna þarf að mixa af meiri fágun; rétt magn af oflæti og sjálfshóli útí vælið…

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Var að lesa Markaðinn frá því í gær, mér til skemmtunar og yndisauka afþví að ekkert er skemmtilegra en íslenskir kapítalistar þegar þeir eru í hátíðaskapi. Þá nálgast þeir framreiðslu samfélags-narratívsins af meiri vandvirkni en þegar hversdagsleikinn er við völd, þegar bara er sullað einhvern veginn. Hátíðarblönduna þarf að mixa af meiri fágun; rétt magn af oflæti og sjálfshóli útí vælið um að gæfan sé fallvölt og viðkvæm og að ekkert sé verra fyrir hana en vinnuaflið og svo bankaskatturinn. (Vissulega er skattheimta á kapítalið almennt mjög ógeðsleg, en Jesú hjálpi okkur út af þessum bankaskatti. Er aldrei komið nóg?) Og í hátíðarblönduna verður að passa að ekkert fari nema hárrétt hráefni, annars gæti innihaldið farið að freyða og sullast á fína dúkinn og það er ekki gott á hátíðarstund. Hér þarf að vanda sig.

Allavega, þegar ég var búin að lesa blaðið hugsaði ég og flissaði um leið (það er þess vegna sem ég les Markaðinn, af því það er hollt og gott fyrir heilann og boðefnin inní honum að flissa) að það væri pinkulítið aðdáunarvert afrek hjá heilu blaði um tilveru kapítalsins á Íslandi á árinu sem er að líða að láta sem rannsókn Fjármálaeftirlitsins á peningaþvættisvörnum íslensku bankanna sem leiddi í ljós að þær hefðu bara agnarsmáar verið, hefði ekkert gerst. Að það sé svo lítið mál að Ísland hafi lent á gráum lista um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að það taki því ekki að minnast á það. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að peningafólk á Íslandi er orðið bæði sjóað og lífsreynt og ekki gefið fyrir að hlusta á kvart í öðrum en sér sjálfu og það gæti útskýrt þetta nonchalance gagnvart alþjóðlegum peningaþvættis-væluskjóðum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Að það sé svo lítið mál að Ísland hafi lent á gráum lista um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að það taki því ekki að minnast á það.

Vel af sér vikið, Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. Þú ert góð og skemmtileg innsýn í tilveru þeirra sem að eiga eyjuna og það væri nú aldeilis til lítils að eiga auðstétt ef að við fengjum ekkert að fylgjast með líðan hennar og tilveruskilyrðum. Hátíðarblandan er vel blönduð hjá þér í ár, fremur bragðdauf og lágstemmd en rennur ljúflega niður og hægt að para með næstum öllu. Nema ógeðslega bankaskattinum en það parast auðvitað ekkert með þeim vúlgera hrylling.

Ps. Ef þið ætlið að kíkja á blaðið þá hvet ég ykkur sérstaklega til að lesa grein framkvæmdarstjóra Samtaka fjármálafyrirtækja um illsku skattlagningar og regluverks sem að gerir allt verra í þjóðfélaginu og um innviðina sem að bankar eru, miðlunarhlutverk fjármagns og súrefni. Og hver ætlar eiginlega að vera á móti súrefni?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: